keipur

Orðið keipur ‘útbúnaður (á borðstokk róðrarbáts) sem árin leikur í, þegar róið er’ kemur fyrir í orðatiltækjum eins og sýður á keipum og sitja (fast) við sinn keip. Fyrra orðatiltækið barst fyrir skömmu í tal milli manna á vinnustað og spunnust nokkrar umræður um hvernig þetta væri hugsað, hvort róið væri svo fast að ár og borð hitnuðu, svo að við suðu lægi, eða hvort siglt væri svo djarft að freyddi um bóg og borð. Hið síðara mun rétt vera, sbr. Jón G. Friðjónsson 2006 (undir keipur).

Enda þótt orðið keipur sé gamalt í málinu―það kemur þegar fyrir í fornu máli―eru engar fornar heimildir um orðatiltækið, og það kemst ekki á orðabækur fyrr en með annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar handa skólum og almenningi (1983). Hér má til fróðleiks skjóta því inn að í Viðauka orðabókar Blöndals, Tillæg og Rettelser (1924), er orðið keipaljós og sagt merkja froðu sem myndast um keipana við róður, ‘Skum, som sætter sig paa Aaretollene under Roningen’ (bls. 1033). Elstu dæmin um orðatiltækið, sýður á keipum, í söfnum Orðabókar Háskólans eru frá fyrsta þriðjungi síðustu aldar (20f):
 • sigldu þeir svo, að sauð á keipum. JTrRit V, 393 (20f)
 • Þegar kom fyrir Klofning hvessti enn meir, svo að sauð á keipum. AArnÖrl, 26 (20m)
 • Nú er ekki brugðið upp seglum, og látið sjóða á keipum út á miðin. Náttúrufr 1938, 129
Einnig eru dæmi um að orðatiltækið sé notað í yfirfærðri merkingu um að fara mikinn í orðum og æði:
 • vera fyndinn og napur, láta sjóða á keipum. JTrRit V, 369 (20f)
Lúðvík Kristjánsson (1983) lýsir í siglingakafla í verki sínu, Íslenzkir sjávarhættir, þegar sigldur var síðuvindur. Þar segir m.a. (bls. 247):
 • Þegar sýður á keipum, skera keiparnir eða tollurnar sjóinn, og eru þá borðstokkur og hástokkur komnir í kaf. Slík sigling þótti gapaleg, enda fátíð.

Heimildir
 • AArnÖrl: Ari Arnalds. Örlagabrot. Reykjavík 1951.
 • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Ritstjóri: Árni Böðvarsson. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík 1983.
 • Jón G. Friðjónsson. Mergur málsins. Íslensk orðatiltæki. Uppruni, saga og notkun. Mál og menning Reykjavík 2006. [2. útgáfa, aukin og endurbætt].
 • JTrRit V: Jón Trausti. Ritsafn V. Reykjavík 1943.
 • Lúðvík Kristjánsson. Íslenzkir sjávarhættir III. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík 1983.
 • Náttúrufr 1938: Náttúrufræðingurinn. Reykjavík 1938.
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans: http://arnastofnun.is/page/arnastofnun_gagnasafn_ritmal
 • Sigfús Blöndal. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík 1920–1924. [Tillæg og Rettelser].

Gunnlaugur Ingólfsson
Júní 2008