kembingsauga

Talað er um að sá hafi kembingsaugu sem hefur þannig augnlit að enginn einn litur er ríkjandi. Hann er þá kembingseygður, hann hefur kembd augu. Ef hins vegar ber dálítið á bláum lit í slíkum augum eru þau sögð blákembd. Kembingsaugu með ríkjandi brúnum lit eða grænum eru sögð mókembd.

Því hefur verið haldið fram að ráða megi í skapgerð manns eftir augnlitnum. Um það má lesa í þessari þulu sem reyndar er til í ýmsum gerðum:

Móeygður og mislyndur merkir falskan mann.
Kembingseygður kjöftugur kemur illa fram.
Bláeygður og blíðlyndur bestur reynist hann.
Gráeygður og grimmlyndur greindur þykir hann.

Á Norðurlandi mun algengara að tala um kyrningsaugu en kembingsaugu og er þá sá með þannig augnlit kyrningseygður.

Lýsingarorðið kembdur er dregið af sögninni að kemba í merkingunni 'greiða ull sundur (með kömbum eða í kembingsvél) undir spuna'. Talað er t.d. um blákembt band ef viskar af tveimur litum, bláum og hvítum, eru kembdir saman. Bandið verður þá rílótt og þannig eru augun líka sem blönduð eru að lit.

Hvorki eru til dæmi í ritmálssafni Orðabókarinnar um kembingsaugukyrningsaugu en talsvert fékkst af svörum við fyrirspurn til hlustenda þáttarins um íslenskt mál í Ríkisútvarpinu. Ljóst er að bæði orðin eru vel þekkt um allt land, kyrningsaugu þó fremur fyrir norðan eins og áður sagði.

Dæmi um blákembd augu má aftur á móti finna í bókum Ólafs Jóh. Sigurðssonar, Fjallið og draumurinn og Vorköld jörð:
  • Blákembd augun geisluðu af furðulegri bjartsýni.
  • Það færist íhygli í svip hans, brýnnar hnyklast lítið eitt yfir skærum blákembdum augunum.

Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans