Kiljan

Karlmannsnafnið Kiljan varð alþekkt á Íslandi þegar Halldór Laxness rithöfundur tók sér þetta nafn um leið og hann lét skírast til kaþólskrar trúar árið 1923.

Kiljan er dýrlingsnafn, heilagur Kiljan var írskur biskup sem á 7. öld gerðist trúboði í ríki Franka þar sem nú er Þýskaland. Honum varð vel ágengt, kristnaði m.a. hertogann af Würzburg, Gozbert að nafni, en skipaði honum jafnframt að skilja við eiginkonu sína því hún var ekkja bróður hans og slík hjónabönd leyfði kirkjan ekki. Þetta samþykkti Gozbert en hertogafrúnni leist ekki á blikuna og þegar hertoginn fór í hernað lét hún myrða Kiljan og tvo samverkamenn hans. Illvirkið komst upp þegar hertoginn kom heim og Kiljan var lýstur píslarvottur.

Nafnið er af gelískum uppruna, Cillian, upphaflega viðurnefni, myndað með smækkunarendingu af gelíska orðinu ceallach 'barátta' eða leitt af gelísku ceall 'klaustur, kirkja'.

Ekki hefur nafnið Kiljan náð vinsældum á Íslandi, a.m.k. ekki enn sem komið er. Í þjóðskrá 1997 var aðeins einn sem bar þetta nafn sem síðara af tveimur, auk Halldórs Kiljan.

Hins vegar hefur nafnið alið af sér ný orð eins og kiljanska, kiljanskur og kiljanslega sem höfð eru um það sem þykir í anda Halldórs Laxness, hvort sem það er málfar og stíll, skáldskaparstefna eða stjórnmálaskoðanir. Hér eru nokkur dæmi, flest frá því um og fyrir miðja 20. öld:
 • Kiljönsku skáldin byrja að yrkja og birta ritverk sín á prenti milli fermingar og tvítugs (1928)
 • Stíll Jónasar er ærið kiljanskur (1955)
 • Kiljanskan er árangur þeirra verkskifta- og einhæfniskenninga, er vélhyggjan hefir gert „móðins“. (1928)
 • [Þjóðviljinn], sem birti greinina, þýdda á Kiljönsku, fyrsta daginn eftir upprisuna. (1942)
 • hugsun mína klæði jeg kanske / kiljanslega í rímsins flík (1931)
Reyndar er næstelsta dæmi Orðabókarinnar um lýsingarorðið kiljanskur komið frá Halldóri Kiljan sjálfum en í kvæði hans, „Vegurinn austur“, sem birtist í Kvæðakveri 1930 segir m.a.:
 • vegurinn austur líkt og kiljönsk saga.
Í síðari útgáfum Kvæðakvers hefur skáldið þó breytt þessari ljóðlínu í
 • Vegurinn austur, ó þú lífs míns saga.

Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
 • Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson frá Arnarvatni. 1991. Nöfn Íslendinga. Heimskringla, Reykjavík.
 • Halldór Laxness. 1992. Kvæðakver – 5. útg. aukin. Vaka-Helgafell, Reykjavík.
 • Lauchert, Friedrich. 1910. St. Kilian. The Catholic Encyclopedia. [Vefútg. 1999] Veffang: http://www.newadvent.org/cathen/08639a.htm
Aðalsteinn Eyþórsson
apríl 2002