kölskaþráður

Margir kannast við að erfiðlega getur tekist til við sauma ef þráðurinn er hafður allt of langur. Hann vill flækjast og á hann koma oft lykkjur sem illt er að leysa. Ýmis orð eru til um þennan langa þráð og eru þau öll notuð í niðrandi merkingu, t.d. kölskaþráður, skollaþráður, letiþráður, letikonuþráður og saumaskituþráður. Engin dæmi eru um þessi orð í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans en fáein í talmálssafni. Ýmsir heimildamenn nefndu kölskaþráðinn og sögu honum tengda. Ekki voru allar útgáfur sögunnar eins. Flestum bar saman um að stúlka nokkur, bráðdugleg að sauma, hefði látið liggja orð að því að hún þyrfti að keppa við sjálfan kölska í skyrtusaumi. Sá gamli birtist þá og heimtaði að hún stæði við orð sín. Honum þótti hún þræða nokkuð oft nálina og hugðist ekki tefja sig á því og hafði nálþráðinn svo langan að hann varð að hlaupa hringinn í kringum borðið við hvert nálspor. Saumakonan varð að sjálfsögðu á undan kölska sem bæði tapaði keppninni og konusálinni. Sumir sögðu að kölski hefði þurft að hlaupa þrisvar í kringum bæinn við hvert nálspor, aðrir fimm sinnum. Skollaþráðurinn vísar til sömu sögu.

Letiþráður og letikonuþráður eru mjög algeng heiti á löngum saumþræði enda var talið að löt saumakona hefði þráðinn langan til þess að þurfa sem sjaldnast að þræða nálina. Til er málsháttur þessu tengdur: Jafnan er langur latrar konu þráður. Lykkjan sem myndast ef flækja kemur á þráðinn heitir letikonulykkja og hnúturinn letikonuhnútur. Ef heppnin er með er stundum hægt að stinga nál í lykkjuna og toga í þannig að hnúturinn leysist. Er hann þá af flestum nefndur lukkuhnútur.

Saumaskita þykir ekki merkileg saumakona. Við hana er langi saumaskituþráðurinn kenndur. Léleg prjónakona er aftur á móti nefnd prjónaskita.

Guðrún Kvaran
júlí 2008