könguló

Öll þekkjum við köngulóna vel, suma hryllir við henni, öðrum finnst gaman að fylgjast með henni spinna net sitt og sitja um bráðina.

Fáum er ef til vill ljóst að þetta litla dýr á sér mörg heiti. Hennar er þegar getið í fornum íslenskum heimildum og þá undir heitinu köngurváfa og köngurvofa.

Í orðabók Guðmundar Andréssonar frá 1683, sem er elst íslenskra útgefinna orðabóka, eru nefnd þessi heiti: göngurvofa, göngukona, køngurvofa eða kóngurvofa og kongulo (könguló eða kónguló; á þessum tíma gat o staðið fyrir o, ó eða ö).

Í latnesk-íslenskri orðabók Jóns Árnasonar biskups frá 1734 er að finna heitin göngurófa og gönguló og Jón Ólafsson úr Grunnavík nefnir í orðabókarhandriti frá 18. öld konguló og kónguló. Hann virðist hafa þekkt báðar myndirnar.

Í orðabók Björns Halldórssonar frá 1814 kemur fyrir myndin konungvofa. Í söfnum Orðabókarinnar rakst ég til viðbótar á heitin köngulló, kóngulló, kóngulófa, kóngurváfa, köngurófa, kringvefja, gönguló, göngulófa, göngurófa og gönguvofa.

Könguló og kónguló eru langalgengustu heitin í dag.

En hvað liggur að baki öllum þessum heitum?

Ásgeir Blöndal Magnússon telur að köngurváfa sé upprunalegasta orðmyndin en aðrar myndir séu ummyndanir úr henni (1989:538). Þetta styðja heitin í fornu máli. Fyrri liðurinn köngur- virðist ekki koma fyrir sem sjálfstætt orð í fornu máli en Ásgeir gerir ráð fyrir merkingunni 'net, e-ð brugðið eða fléttað' og dregur að skyld orð úr öðrum germönskum málum þessu til stuðnings. Myndir með köngul- eru sennilega lagaðar eftir orðinu köngull.

Jón Ólafsson úr Grunnavík tengir myndina kóng- við orðið kóngur í merkingunni 'lítill hnöttur' en orðið getur einnig merkt 'pípuhaus, tindur, hnúkur, kuðungur'. Í merkingunni 'kuðungur' er orðið tökuorð úr dönsku kong, konk 'beitukóngur'. Framburðarmyndin kóngur- fyrir köngur- og tökuorðið kóngur styðja saman að útbreiðslu orðsins kóngu(r)ló. Myndin kóngur 'kuðungur' hefur síðan verið misskilin og tengd orðinu kóngur 'konungur' sem skýrir myndina konungvofa hjá Birni.

Myndir með göngu- að fyrra lið eru tilraunir til að skýra orðið köngu(r)- og hafa verið nokkuð úrbreiddar.

Síðari liðurinn -váfa er skyldur sögninni að vefa, þ.e. sú sem vefur. Liðurinn -vefja er tilraun til skýringar og liðinn -vofa má eins lesa -vófa þar sem ekki var gerður greinarmunur á -o- og -ó- og merkir hann einnig 'sú sem vefur'.

Á undan -á- og -ó- gat -v- fallið brott og -váf-/-vóf- varð -áf-/-óf-. Stafurinn -r- í fyrri lið gat þá færst yfir á síðari lið og úr urðu myndirnar köngu-rófa og göngu-rófa.

Orðliðaskilin hafa líka færst til í köngul-ófa, kóngul-ófa sem verða þá köngu-lófa og kóngu-lófa. Í framburði fellur -f- oft niður milli sérhljóða (sbr. að orðið lófi er oft borið fram 'lói') og þannig hafa myndirnar kónguló og könguló orðið til.

Heimildir
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
  • Björn Halldórsson. 1814. Lexicon Islandico-latino-danicum. Kaupmannahöfn. (Endurútgefin hjá Orðabók Háskólans 1991).
  • Guðmundur Andrésson. 1683. Lexicon Islandicum .... Kaupmannahöfn (endurútgefin hjá Orðabók Háskólans 1999).
  • Guðrún Kvaran. 1996. Um köngulær. Íslenskt mál og almenn málfræði 18:193-209.
  • Jón Árnason. 1734. Nucelus Latinitatis. Kaupmannahöfn. (Endurútgefin hjá Orðabók Háskólans 1994).
  • Jón Ólafsson úr Grunnavík. Handrit að orðabók varðveitt á Stofnun Árna Magnússonar.
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.

Guðrún Kvaran
janúar 2003