kontórstingur

Kontórstingur er útsaumsspor sem notað er í útlínur ýmiss konar. Í ritmálsafni Orðabókarinnar eru aðeins þrjú dæmi um orðið, það elsta úr Fjallinu og drauminum eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson (1944, bls. 262):
 • Frúin Emilía kenndi stúlkunum hannyrðir, kenndi þeim flatsaum, kontórsting og aftursting.
Orðið kontórstingur er tökuorð úr dönsku (kontursting) en fyrri hlutinn er dreginn af franska orðinu contour, þ.e. `útlína, fyrirmörk'. Þessi orðhluti á sér ekki hliðstæðu í öðru íslensku orði en er gjarnan ruglað saman við tökuorðið kontór sem merkir `skrifstofa'. Það orð er einnig tökuorð úr dönsku sem ættað er frá franska orðinu comptoir sem merkir `búðarborð' (sjá Íslenska orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon 1989).

Ætla má að orðið kontórstingur sé eldra í málinu en dæmin í ritmálsskrá sýna en orð af þessu tagi rata ekki oft á prent enda er það dæmigert fyrir orð sem komast á kreik í talmáli. Slík orð eiga sér oft samheiti sem frekar eru notuð í ritmáli. Í fyrstu íslensku hannyrðabókinni Leiðarvísi til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir sem út kom 1886 er kontórstingur nefndur leggsaumur en þar er elsta dæmi í ritmálsskrá um það orð (bls. 10):
 • Á mynd þessari er kenndur leggsaumur, og eru þannig saumaðir leggir á blómum og blöðum.

kontórstingur
Myndir af leggsaumi eða kontórsting
úr bókinni Leiðarvísir til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir (1886)

Eldri dæmi um orð um þessa saumagerð í ritmálssafni Orðabókarinnar eru varpleggur og varpsaumur og er fyrra orðið haft sem skýring í Íslenskri orðabók (2003) á orðinu kontórstingur. Þá notar Elsa E. Guðjónsson þetta orð í bókum sínum um íslenskan útsaum, t.d. í Íslenskar útsaumsgerðir (1975, bls. 18):

Varpleggur (varpsaumur) er ýmist saumaður eftir áteiknuðum línum eða eftir þræði. Algengast er að sporið sé tekið þannig að nálin komi upp þar sem henni var stungið niður í næsta spori á undan. Nálin kemur ávallt upp sömu megin við sporin.

Elsta dæmi um orðið varpleggur í ritmálssafni Orðabókarinnar er úr skýrslu Sigurðar Guðmundssonar um Forngripasafn Íslands (1868-1874; II, bls. 118):
 • Varpsaumur, eða varpleggur, eins og steypilykkja tíðkaðist þá mikið á pilsum og svuntum kvenna.
Í ritmálsskrá eru fjölmörg eldri dæmi um orðin varpsaumur og varpsaumaður, t.d.:
 • Jtem Rautt alltaris klædi varpsaumad. (Bps.AII,11, 789 (1690))
 • Annad [e: altarisklæði] brukanlegt med varpsaum. (Bps.AII,11 47 (1675))
 • þridie [e: altarisdúkur] af hvitu Lereffti med blaum varpsaum a hornum og midiu. (Bps.BIII,16, 196 (1748))
E.t.v. hafa þessi orð lagst af vegna hættu á misskilningi þar sem einnig er talað um að varpa sauma eða jaðra í gjörólíkri merkingu, þ.e. `sauma yfir brún á e-u' sbr. orðið skóvarp.

Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
 • Dahlerup, Verner. 1929. Ordbog over det danske sprog. Det danske sprog- og litteraturselskab, København.
 • Elsa E. Guðjónsson. 1975. Íslenskar útsaumsgerðir. Reykjavík.
 • Elsa E. Guðjónsson. 1985. Íslenskur útsaumur. Veröld, Reykjavík.
 • Íslensk orðabók. 3. útg. 2003. Ritstj. Mörður Árnason. Edda hf, Reykjavík.
 • Leiðarvísir til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir eptir Þóru Pjetursdóttur, Jarðþr. Jónsdóttur og Þóru Jónsdóttur. Reykjavík 1886. Prentaður hjá Sigm. Guðmundssyni.