kosningar

Sögnin kjósa heyrist og sést æ oftar þessa dagana enda er nú skammt til kosninga.

Af sömu rót og sögnin er nafnorðið kosning, sem haft er um þá athöfn sem í sögninni felst. Fleirtölumynd nafnorðsins, kosningar, hefur fengið þá merkingarlegu sérstöðu að vísa til þeirrar venju í lýðræðisþjóðfélagi að almenningur ákveði með atkvæði sínu hverjir eiga sæti á löggjafarsamkundu þjóðarinnar og í sveitarstjórnum. Þessi sérmerking fleirtölunnar hefur sýnilega mótast á 19. öld, þegar kosningarréttur kom til sögunnar og þjóðin fór að kjósa fulltrúa sína til þingsetu.

Annað verknaðarnafnorð sagnarinnar kjósa frá fornu fari, sem enn lifir góðu lífi, ekki síst í samsetningum, er orðið kjör.

Í fornmáli kemur fram enn ein nafnorðsmyndun af sögninni, sem reyndar virðist vera ráðandi í elstu ritheimildum, en það er karlkynsorðið kosningur. Um það orð eru dæmi allt fram á 19. öld. Auk þess að vera haft um verknaðinn að kjósa er það í fornu máli haft um þann sem kosinn er til einhvers hlutverks eða starfa, eins og fram kemur í skýringu við orðið í orðabók Fritzners.

Enn má bæta við orðinu kos, sem í fornmáli kemur sem forliður í samsetningum, en skýtur svo upp kollinum sem sjálfstætt orð á 19. öld. Eftirfarandi dæmi er að finna í 11. árgangi Norðanfara, bls. 94:
  • er konungur alls ekki bundinn við atkvæði þings í kosi ráðgjafa sinna.
Ekki er loku fyrir það skotið að hér sé verið að staðfesta þá athugasemd sem höfð er við flettiorðið kos í orðabók Björns Halldórssonar en þar er tekið fram að orðið sé "brúkanlegt orð enn í dag" og vísað til samsetningarinnar koseyrir í fornu máli.

Það er athyglisvert að fleirtölumyndin kosningar skuli hafa greinst frá grunnmerkingu nafnorðsins á þann hátt sem raun ber vitni. Notkun fleirtölunnar skýrist vísast af því að margir eiga hlut að kosningunni og á þann hátt er um margar kosningar að ræða.

Sams konar merkingarsérstaða fleirtölumyndar kemur fram í orðinu völ (fleirtölu af orðinu val) sem talsvert ber á í ritheimildum 19. aldar en er nú horfið úr málinu. Um það má m.a. tilgreina eftirfarandi dæmi úr Alþingistíðindum frá 1845 (fleiri dæmi er að finna í gagnasafni Orðabókarinnar undir flettiorðinu val):
  • að kjörgeingir verði allir þeir, sem í næstu fardögum á undan völunum áttu 10 hndr. í tíundbærum fjármunum, jörð eða lausafé, eða hvorutveggja samtöldu.
Benda má á að jafnheiti orðsins kosningar í norrænum málum eru af þessum stofni (valg í dönsku og norsku, val í sænsku), og hér kann að gæta danskra áhrifa, en merkingarleg sérstaða fleirtölumyndanna er íslenskt fyrirbæri.

Samhliða því sem hugtakið og fyrirbærið kosningar mótast og þroskast skýrist vitund manna um þá sem hafa rétt til þátttöku í kosningum hverju sinni. Fyrst í stað virðist þeim ýmist valið heitið kosningarmenn eða kjósendur en síðarnefnda heitið er nú allsráðandi.

Það á vel við að gera þessi orð að umtalsefni nú, því að brátt rennur upp sá dagur þegar kjósendur hafa orðið.