kostulegur


Lýsingarorðið kostulegur hefur þekkst í málinu öldum saman. Það var upphaflega notað í merkingunni ‛dýrmætur, ágætur, dýrlegur’, t.d. um kostuliga veislu og kostuligt kramverk (Fritzner II:338). Elsta dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr  þýðingu Odds Gottskálkssonar á Historíu pínunnar sem gefin var út 1558:

  • var hann vel tekinn af honum i kostuligu halldi.

Litlu yngra er dæmi úr Guðbrandsbiblíu frá 1584. Það er úr sjöunda kafla Síraksbókar:

  • Skil þig ei vid gooda og skynsama Konu / þuiat hun er kostuligre enn mikit Gull.

Í nýjustu biblíuþýðingunni frá 2007 er þetta sama vers svona:

Varpa ekki frá þér viturri konu og góðri,
þokki slíkrar er gulli dýrmætari.

Þessi merking hélst fram eftir öldum. Í Nucleus latinitatis, latnesk-íslenskri orðabók Jóns Árnasonar biskups frá 1738, sést að merkingin er vel þekkt og orðið kostulegur er margoft notað í skýringum, t.d.:

  • eg held Giestabod, kostulega Maltijd … (66)
  • ad veita einum kostulegann Skeink, ad sæma einn med kostulegri Gafu (183)
  • Jurta Skapur, eda Skryn med Specerij, og kostulegum Jurtum og Smyrslum (185) [skeinkur, gáfa = gjöf, specerí = krydd]

Þessi merking hélst að minnsta kosti fram á miðja 20. öld þótt hún hafi þegar í fyrstu útgáfu Íslenskrar orðabókar Menningarsjóðs (1963) verið merkt sem ,,fornt og úrelt mál“. Þá er einnig komin fram önnur merking ‛skrýtinn, skringilegur, furðulegur’. Þetta er sú merking sem algengust er í dag og er elsta heimild Orðabókarinnar um hana úr ritinu Föt og fegurð frá 1950:

  • Sagði móðir yðar nokkurn tíma við yður, þegar þér voruð lítil stúlka með gat á sokkunum yðar [ [...]]: ,,Ef þú verður fyrir slysi, hvað heldur þú að fólk segi?“ Þér hlóguð sjálfsagt og fannst hún bara kostuleg, því þér gátuð ekki ímyndað yður, hvernig gat á sokkunum yðar gæti dregið úr virðingu móður yðar.

Í Íslensk-danskri orðabók, sem kennd er við Sigfús Blöndal (1920–1924:448), er nýja merkingin ekki tilgreind, aðeins gefin merkingin ‛kostelig, fortræffelig, herlig’.

Eldri merkingin þekkist vel í skyldum málum. Í nýháþýsku er samsvarandi orð köstlich ‛ljúffengur, gómsætur’ og ‛skemmtilegur, óborganlegur’, í miðlágþýsku kost(e)lich, í dönsku kostelig ‛dýrmætur, ágætur’. Yngri merkingin hefur líklegast borist hingað úr dönsku þar sem hún þekkist um eitthvað skringilegt, skemmtilegt.
 
Heimildir:

  • Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans. Um bókfræðilegar upplýsingar vísast þangað.
  • Fritzner, Johan. 1891. Ordbog over Det gamle norske Sprog. Andet Bind. Kristiania.
  • Jón Árnason. 1994. Nucleus latinitatis … . Ný útgáfa. Guðrún Kvaran og Friðrik Magnússon sáu um útgáfuna. Reykjavík, Orðabók Háskólans.

Guðrún Kvaran
Mars 2012