krákur

Karlkynsorðið krákur kemur fyrir í fornu máli og er talið merkja ‘hrafn’. Í Snorra-Eddu er það talið með hrafnsheitum og í fornsögum kemur orðið bæði fyrir sem mannsnafn, viðurnefni og nafn á hesti. Krákur er líka nefndur í Þorsteins sögu Síðu-Hallssonar þar sem segir frá Brjánsbardaga og skiptum aðalpersónunnar við Sigurð Orkneyjajarl:

Þar féllu þrír merkismenn jarls og þá bað jarl Þorstein bera merkið.
Þorsteinn svarar: "Ber sjálfur krák þinn jarl."
Þá mælti einn maður: "Vel gerðir þú Þorsteinn því að af því hefi eg misst þrjá sonu mína."

Í Orkneyingasögu þar sem nánar segir af merki jarlsins kemur fram að í því var einmitt hrafnsmynd svo vel mátti kalla það krák.

En krákur gat merkt fleira. Í gömlum kirkjumáldögum er krákur eða líkakrákur oft nefndur meðal kirkjueigna. Þetta mun hafa verið einhverskonar graftól, notað til að höggva jarðklaka þegar grafir voru teknar. Annað orð yfir áþekkt verkfæri var þelahögg en um það segir sr. Björn Halldórsson í Sauðlauksdal í viðaukum við Orðabók sína:

Þela högg er hid sama og isa krákur edur maski lika krákur, hefur verid þick páloxi sem brukad var til ad höggva is á sió edur votnum og þela edur klaka i kirkiugordum sem hefur verid miög olyk þeim gomlu breidöxum (bls. 541)

Það er ekki fráleitt að hugsa sér að í tilsvari Þorsteins Síðu-Hallssonar sé leikið með þessar tvær merkingar orðsins krákur. Auk þess að vísa til hrafnsmyndarinnar í merkinu er gefið í skyn að hver sem merkið beri sé feigur – hann grafi sína eigin gröf. Þessi skilningur fær aftur stuðning af frásögn Orkneyingasögu því þar er frá því sagt að merkinu fylgdu raunar þau álög að sá féll sem bar það í orustu en eigandinn hafði sigur.

Krákur hélt velli sem mannsnafn fram á 19. öld en hvarf síðan úr notkun, hins vegar mun það enn tíðkast sem nafn á hestum og hrútum. Loks er Krákur nafn á fjalli norðan við Langjökul og Krákshraun heitir hraunið þar norður af.

Heimildir
  • Söfn Orðabókar Háskólans.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík.
  • Björn Halldórsson. 1991. Orðabók: Íslensk – latnesk – dönsk. Jón Aðalsteinn Jónsson sá um útgáfuna. Orðfræðirit fyrri alda 2. Orðabók Háskólans. [Reykjavík]
  • Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson frá Arnarvatni. 1991. Nöfn Íslendinga. Heimskringla, Reykjavík.
  • Íslendinga sögur III. 1985. Ritstj. Jón Torfason, Sverrir Tómasson og Örnólfur Thorsson. Svart á hvítu. Reykjavík.
  • Orkneyinga saga. 1965. Finnbogi Guðmundsson gaf út. Íslenzk fornrit 34. Hið íslenzka fornritafélag. Reykjavík.

Aðalsteinn Eyþórsson
apríl 2003