krumsprang

Orðið krumsprang þekkist í málinu að minnsta kosti frá miðri 19. öld en ritmyndin krúmsprang virðist eitthvað yngri. Í Íslenskri orðabók (2002) er orðið sagt merkja 'skrautkrókar í skrift, óregluleg skrift, klór' og kemur það vel heim og saman við dæmin í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Elsta dæmið er úr ritinu Vefarinn með tólfkóngavitið eftir Sveinbjörn Hallgrímsson sem út var gefið 1854 en það er þýtt og stælt eftir bók Ludvigs Holbergs Den politiske kandestöber.

Annað elsta dæmið er úr riti Ólafs Davíðssonar Skemtanir frá 1888–1892 en þar er Ólafur að segja frá kvæði sem séra Ólafur á Söndum hafi snúið úr þýsku og birst hafði í kvæðabók hans. Síðan segir Ólfur Davíðsson: ,,Krumsprángi því og krússindollum, sem eru í textanum við nóturnar, er alveg slept hér.“

Guðmundur Hagalín rithöfundur notar myndina krúmsprang oft í ritum sínum. Í Konungurinn á Kálfskinni frá 1945 skrifar hann t.d.: ,,Neðst í kassanum silfurskjöldur með áletrun og krúmsprangi allt í kring.“ Fleiri dæmi má skoða á heimasíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (www.arnastofnun.is).

Í Íslenskri orðabók er einnig nefnd sögnin krumspranga í merkingunni 'ganga hlykkjótt til og frá'. Ekkert dæmi fannst um hana í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans en í Talmálssafni voru tveir seðlar, báðir úr Mýrasýslu. Dæmin eru of fá til þess að unnt sé að ráða af þeim hvort um staðbundna notkun sé að ræða.

Í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar kemur fram að nafnorðið krumsprang sé tökuorð úr gamalli dönsku, en í nútímadönsku er myndin krumspring. Danska orðið er aftur fengið úr þýsku Krumsprung sem sett er saman af lýsingarorðinu krumm 'boginn' og Sprung 'stökk'.

Heimildir:

  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
  • Íslensk orðabók. 2002. I–II. Edda, Reykjavík.
  • Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans.

Guðrún Kvaran
nóvember 2009

Fleiri orðapistlar