kústur, kústi, kóstur

Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru dæmi um orðið kústur allt frá fyrsta þriðjungi 19. aldar. Orðið er tökuorð úr dönsku, kost, (Ásgeir Blöndal Magnússon 1989:520) og hefur reyndar tekið á sig fleiri myndir að hljóðafari og beygingu en hina venjubundnu mynd, kústur.

Af talmálssafni Orðabókar Háskólans má sjá að orðmyndin kústur hefur verið ráðandi en veika beygingin kústi hefur verið víða kunn til skamms tíma. Dæmi eru um þessa orðmynd frá heimildarmönnum úr Rangárþingi, Fjörðum og Héraði, úr Vopnafirði, Þingeyjarsýslum og Eyjafirði. Ekki er svo að skilja að kústi sé ráðandi orðmynd í þessum hálfum, heldur vel þekkt og ýmsum töm auk hinnar algengari, kústur. Auk þessara víxlmynda, kústi/kústur þekktu heimildarmenn enn fremur orðmyndina kóstur en hún var bundin við vestanvert landið, einkum Vestfirði. Heimildarmenn úr Súgandafirði og Önundarfirði tóku t.d. svo til orða: Við segjum kóstur fyrir vestan, við töluðum alltaf um kóst, ekki kúst, við hér vestra tölum ætíð um kóst en ekki kúst o.s.frv. Enn fremur segir heimildarmaður á Akureyri að orðmyndin kóstur hafi heyrst þar fyrrum.

Tvímyndir eins og kústur/kústi skýrast af því að orðið er tökuorð, kemur endingar- og umkomulaust inn í málið og þarfnast íslensks búnings, þ.e. endingar og beygingarflokks. Af fleirtöluendingunni –ar verður ekki eindregið ráðið hvort eintölumyndin er –i eða –ur. Af því rís vafi og tvímyndir í eintölu koma upp og lifa hlið við hlið um hríð. Önnur lýtur smám saman í lægra haldi en getur þó lifað áfram sem staðbundin orðmynd.  Framburðamyndin kóstur kynni að vera tilraun til að halda í danska framburðinn í orðinu kost.

Heimildir

  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans.
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans.

Gunnlaugur Ingólfsson
febrúar 2012