lánardrottinn

Orðið lánardrottinn er alkunna og á sér langa og samfellda sögu í íslensku máli. Það kemur þegar fyrir í fornum ritum og allar götur síðan og hefur verið algengt í ræðu og riti, ekki síst nú síðustu misserin.

Í eldra máli hefur orðið nokkuð aðra merkingu en nú tíðkast. Það merkti í fornu máli og fram eftir öldum ‘yfirmaður, yfirvald; húsbóndi’. Í Njálu (bls. 210) segir Kolbeinn austmaður við Hrapp, er hann hafði svikið sér far með Kolbeini til Noregs: „en þó ræð ek þér þat annat heilræði, at þú svík aldri lánardróttin þinn.“ Húsbónda-merkingin kemur fram í orðum Atla þræls við Njál (bls. 99): „Betra þykki mér at látast í þínu húsi,“ segir Atli, „en skipta um lánardrottna.“ Í Grettlu (bls. 181) segir Þórir rauðskeggur við Gretti ― Rauðskeggur var reyndar sendur til höfuðs honum ― : „en heyrt muntu mín hafa getit um vígaferli ok ójafnað, en aldri um slíkt dáðleysi, at svíkja lánardróttin minn.“ Þessi húsbónda- og yfirboðara-merking helst fram yfir siðaskipti og verður reyndar vart allt fram á okkar daga. Hún kemur t.d. fram í Biblíuþýðingu Guðbrands biskups Þorlákssonar (1584): „augun þénaranna horfa upp á hendur sinna lánardrottna“ (Sálm. 123,2). Í síðari þýðingum er hér komið orðið húsbóndi í stað lánardrottinn.

Sú merking í lánardrottinn sem nú er tíðust, ‘skuldareigandi’, kemur ekki fram fyrr en á 18. öld. Elsta dæmið er að líkindum úr Nucleus Latinitatis, Kleyfsa, eftir Jón biskup Árnason frá árinu 1738. Þar kemur orðið fyrir sem þýðing á latneska orðinu creditor: sá sem lánar einum eitthvað, lánardrottinn. (Undir orðinu credo). Enn fremur kemur orðið fyrir í orðabók Björns Halldórssonar, Lexicon Islandico-latino-danicum sem út kom 1814. Á 19. öld og síðan verður það algengt í merkingunni ‘skuldareigandi, kröfuhafi’ eins og sjá má af dæmum í ritmálssafni Orðabókar Háskólans.

Myndun orðsins lánardrottinn er athyglisverð og einkennileg að því er form fyrra liðar varðar. Það er samsett úr orðunum lán ‘það að ljá, það sem léð er; hamingja’ og drottinn ‘herra, húsbóndi, yfirmaður’. Nú er orðið lán hvorugkynsorð og hefur eignarfallsmyndina láns, og því er það ráðgáta hvers vegna það hefur þetta form, lánar-, í þessu sambandi en ekki láns-, lánsdrottinn eða lána-, lánadrottinn. Fræðimönnum ber ekki saman um skýringar á þessu. Finnur Jónsson getur þess í útgáfu sinni af Lexicon Poeticum (1916/31) að lánardrottinn sé myndað af hvorugkynsorðinu lán, en með eignarfallsendingu kvenkynsorða sem fleiri dæmi séu um, en fjölyrðir ekki um það frekar. Alexander Jóhannesson telur í orðsifjabók sinni að orðið sé eins konar tökuorð, tökuþýðing, en fjallar ekki um form fyrra liðar sérstaklega. Ásgeir Blöndal Magnússon hallast að því í sinni orðsifjabók að form fyrra liðar varðveiti forna stofnendingu svonefndrar az/iz-stofna beygingar, og má það vel vera, því að orðið er mjög fornt og kemur fyrir í elstu heimildum íslenskum og norskum og gæti þess vegna verið arfur aftan úr frumnorrænu.

Fleiri einkennilegar samsetningar mætti nefna. Orðið landareign kemur fyrir að fornu og nýju og Ásgeir Blöndal víkur að því með svipuðum hætti og lánardrottinn hér á undan, að fyrri liður samsetta orðsins varðveiti e.t.v. leifar fornrar beygingar. Í fornu máli koma fyrir orðin dánararfr, dánardægr og dánarfé og þekkjast í síðari alda máli og nútímamáli, a.m.k. dánarár, dánardagur og dánardægur. Hér telja orðkynjafræðingar að á ferðinni sé kvenkynsorðið dán í eignarfalli dánar, en mjög djúpt er á því að það sé í raun bókfest orð. Þá má halda því til haga hér að í orðabók Blöndals er tilgreint orðið fjallarendi=fjallsendi og er heimildin um orðið fengin úr Breiðdal. Enn fremur má geta þess að í kaupstað einum á Austfjörðum er ― eða var til skamms tíma ― hús eitt sem heitir Hátún. Umhverfis þetta hús var túnblettur sem einatt var nefndur Hátúnartún. Þessi dæmi eru hér frekar sett til gamans en að því sé haldið fram að um þúsund eða fimmtánhundruð ára gamlan arf sé að ræða.

Heimildir

  • Alexander Jóhannesson. Isländisches etymologisches Wörterbuch. Bern: Francke Verlag 1956.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans 1989.
  • Biblía. Það er öll heilög ritning … Hólum 1584.
  • Björn Halldórsson. Lexicon Islandico-latino-danicum … Havniæ MDCCCIV.
  • Grettla: Grettis saga Ásmundarsonar. Guðni Jónsson gaf út. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag ― MCMXXXVI.
  • Lexicon Poeticum … 2. Udgave ved Finnur Jónsson 1916/1931.
  • Njála: Brennu-Njáls saga. Einar Ól. Sveinsson gaf út. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag ― MCMLIV.
  • Nucleus Latinitatis … Ný útgáfa. Guðrún Kvaran og Friðrik Magnússon sáu um útgáfuna. Reykjavík: Orðabók Háskólans 1994.
  • Orðabók Blöndals: Sigfús Blöndal: Íslensk-dönsk orðabók … Reykjavík: Prentsmiðjan Gutenberg 1920−1924.