langræði

Orðið langræði er líklega flestum skiljanlegt. Það er samsett af lýsingarorðsstofninum lang- og seinni liðnum -ræði sem dregið er af orðinu róður. langræði merkir upphaflega `löng leið á sjó, einkum langur róður úr landi á fiskimið'. Orðið virðist ekki koma fyrir í fornu máli en dæmi Orðabókar Háskólans ná frá byrjun 18. aldar og fram á síðustu tugi 20. aldar:
 • Lángræði er hjer um 2 vikur sjóar, nær fiskurinn gengur ekki undir eyjuna (fyrri hluti 18. aldar)
 • úr langræði litið til lands, ... sést ei nema efri hlutur fjalla (seinni hluti 18. aldar)
 • þá öfluðu Akurnesingar ... vel, en langræðið var fram úr hófi (miðbik 19. aldar)
 • fjörðurinn er stuttur og því ekki langræði (seinni hluti 19. aldar)
 • víða langræði og sótt út á reginhaf (fyrri hluti 20. aldar)
 • Báturinn er ekki til þess að leggja í langræði (miðbik 20. aldar)
 • Flyðrulegur voru mest stundaðar á þeim tíma árs, þegar veður var gæfast, langræði sjaldnast mikið (seinni hluti 20. aldar)
Frá því á seinni hluta 19. aldar fer að þess að gæta að orðið langræði sé jafnframt haft um langa (og oft erfiða) leið á landi eða jafnvel torsótt verk eins og fram kemur í fyrsta dæminu hér á eftir:
 • áður en maður leggur út í það langræði að sæta tvennum kosningum (seinni hluti 19. aldar)
 • slíkt langræði sem oft er milli íslenzku byggðanna (fyrri hluti 20. aldar)
 • Er langræði mikið að nota þau lönd úr Kaldakinn (miðbik 20. aldar)
 • Í hríðum villtist hann aldrei, hélt út hvert sem langræðið var (seinni hluti 20. aldar)

Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Önnur útgáfa, aukin og bætt. Ritstjóri Árni Böðvarsson. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1983.
 • Talmálssafn Orðabókar Háskólans (seðlasafn).