letigarður

Orðið letigarður er næsta kunnuglegt í íslensku þótt það sé e.t.v. ekki mjög mikið notað núorðið. Það hefur verið þekkt í málinu síðan á 19. öld og Orðabók Háskólans hefur dæmi um það frá því upp úr miðri 19. öld og síðan óslitið allt fram á síðustu áratugi. Það er notað um fangelsi eða stofnun fyrir umkomulausa, umrenninga og brotamenn sem skyldu inna þar af hendi nokkra gagnlega vinnu sér til betrunar. Í myndun og notkun orðsins felst þó að e.t.v. hafi menn ekki unnið sér til þess batnaðar sem vænst hefur verið. Oft er það orðað svo að þessi eða hinn hafi verið á letigarðinum, lent á letigarðinum eða eigi á hættu að lenda þar.

Orðið letigarður hefur þó ekki fengið inni í prentuðum orðabókum um íslenskt mál fyrr en með Blöndalsviðbæti 1963 og fyrstu útgáfu Íslenskrar orðabókar sama ár. Í þeirri síðarnefndu er orðið þýtt `fangelsi' án frekari skýringa en í Blöndalsviðbæti er það þýtt `tvangsarbejdsanstalt', þ.e. þrælkunarhús, þrælkunarbúðir. Enn fremur kemur orðið fyrir í slangurorðabókinni (1982) og í skýringargreininni þar er það skrifað með stórum upphafsstaf: Letigarðurinn vinnuhælið að Litla-Hrauni. Þess ber að geta að í Danskri orðabók með íslenskum skýringum eftir Freystein Gunnarsson (1926) er danska orðið ladegaard m.a. þýtt með orðinu `letigarður (betrunarhús við Kaupmannahöfn)'.

Í elstu íslensku heimildunum (sjá letigarður í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans) er danska orðið ladegaard notað innan sviga eins og til skýringar hinu íslenska orði. Það er því ljóst að orðið letigarður er tökuorð úr dönsku en ,,lagað í munni`` til að ljá því þann merkingarblæ sem það hefur (eða hafði) í dönskunni.

Upphaflega merkti orðið ladegård rými eða garð milli (úti)húsa á bóndabæ. Síðar fékk það merkinguna `býli eða bújörð undan öðru stærra'. Þannig var ,,ladegården`` við Kaupmannahöfn upphaflega búgarður undan konungshöllinni. Seinna varð þessi búgarður spítali fyrir sjúka og sára hermenn og enn síðar fátækrahæli á vegum hersins (fyrir farlama hermenn og skyldulið) og enn fremur fangelsi. Enn síðar eignaðist Kaupmannahafnarborg garðinn og gerði að vinnuhæli fyrir fátæka og húsnæðislausa og síðar að nauðungarvinnuhæli fyrir brotamenn. Þetta er reyndar lengri og flóknari saga en hér verði rakin. En neikvætt orðspor fór af stofnuninni (og vistfólki) þar og orðið sjálft fékk neikvæðan merkingarblæ, einkum í samböndum eins og komme, ende på ladegården `lenda á vinnuhæli'; være lige til ladegården `vera örbjarga'.

Heimildir

  • Dönsk-íslensk orðabók. Ritstjórar: Hrefna Arnalds, Ingibjörg Johannesen. Aðstoðarritstjóri: Halldóra Jónsdóttir. Reykjavík 1992.
  • Freysteinn Gunnarsson. Dönsk orðabók með íslenzkum þýðingum. Reykjavík 1926.
  • Íslenzk orðabók handa skólum og almenningi. Ritstjóri: Árni Böðvarsson. Reykjavík 1963.
  • Mörður Árnason, Svavar Sigmundsson, Örnólfur Thorsson. Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál. Reykjavík 1982.
  • Ordbog over det danske Sprog. Tolvte Bind. Khavn 1932.
  • Sigfús Blöndal. Íslensk-dönsk orðabók. Viðbætir. Ritstjórar: Halldór Halldórsson og Jakob Benediktsson. Reykjavík 1963.