ljósmóðir

Í Íslenskri orðabók (2000) segir um ljósmóður: 'kona sem tekur á móti börnum er þau fæðast, yfirsetukona'.

En af hverju er orðið ljósmóðir dregið? Í Íslenskri orðsifjabók (1989) segir að uppruni orðsins sé umdeildur en líkleg skýring sé að forliðurinn svari til ljóss í merkingunni 'birta, skin, logi, birtugjafi', samanber latneska heitið Lucina en það er nafn þeirrar gyðju er liðsinnti konum í barnsnauð.

Fleiri orð í sömu merkingu má finna í söfnum Orðabókarinnar og öðrum heimildum. Eins og orðin sýna voru það ekki einungis konur sem tóku á móti börnum, karlar sinntu því líka:

Bjargrýgur er að finna í bók Fritzners (1954) og merkir 'kona er tekur á móti barni'; kvenkynsorðið rýgur merkir 'voldug kona, hefðarkvendi; skessa, tröllkona'.

Léttakona er af sama meiði og orðið léttasótt og orðasambandið að verða léttari.

Ljósa er stytting á ljósmóðir. Það orð er ekki síst notað sem n.k. gæluyrði, mjög of í eignarsamböndum: ljósa mín (sbr. mamma mín); þetta má sjá af fjölmörgum dæmum úr ritmálssafni Orðabókar Háskólans:

  • var jeg í fóstri hjá ljósu minni Margrjetu.
  • Hún ljósa þín hefur sagt mér, að þú hafir verið fæddur í sigurkufli.

Jóðmóðir hefur sama forlið og jóðsótt; orðið jóð merkir 'ungbarn, afkvæmi'.

Orðin nákona, náverukona og nærkona vísa í nálægð eða nærveru annarrar konu þegar kona elur barn. Fjölmörg dæmi er um orðið nærkona í ritmálssafni Orðabókar Háskólans en engin um hin orðin tvö, a.m.k. ekki í þessari merkingu. Í Íslenskri samheitaorðabók og Íslenskri orðabók er nákona sagt merkja ljósmóðir og náverukona er í bók Fritzners (1954).

Yfirsetukona vísar til þess hlutverks að sitja yfir og hjálpa fæðandi konum.

Um karlmenn sem annast og aðstoða sængurkonur í fæðingu eru þekkt orðin ljósfaðir (sbr. ljósmóðir), ljósi (sbr. ljósa) og yfirsetumaður (sbr. yfirsetukona). Engin dæmi eru um styttinguna ljósi í ritmálssafni Orðabókarinnar en þar eru nokkur dæmi um hvort hinna orðanna.

  • Jón bjó á Höskuldsstöðum [ [...]] mesti myndarmaður, vegaverkstjóri og yfirsetumaður (ljósfaðir).

Elsta dæmi um orðið ljósmóðir í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr Guðbrandsbiblíu sem var prentuð árið 1584, en dæmi um styttinguna ljósa eru öll yngri, það elsta frá 17. öld. Nærkona og yfirsetukona koma fyrst fyrir í bréfum frá 1541 í Íslensku fornbréfasafni.  Aðeins er eitt gamalt dæmi um hvort orð, jóðmóðir og léttakona, í ritmálssafni Orðabókarinnar. Dæmi um orð sem vísa til karlmanna, yfirsetumaður og ljósfaðir, eru flest frá 19. og 20. öld.


Heimildir

  • Íslensk orðabók - tölvuútgáfa. Edda hf. Reykjavík, 2000.
  • Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon. Orðabók Háskólans. Reykjavík, 1989.
  • Íslensk samheitaorðabók. Styrktarsjóður Þórbergs Þórðarsonar og Margrétar Jónsdóttur, Háskóla Íslands. Reykjavík, 1985.
  • Ordbog over det gamle norske sprog eftir Johan Fritzner. Tryggve Juul Møller Forlag. Osló, 1954.
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans

 

Ólöf Margrét Snorradóttir
apríl 2002
og Ásta Svavarsdóttir