lungi

Merking karlkynsnafnorðsins lungi er 'kjarninn úr e-u, það besta af e-u; meirihlutinn af e-u, bróðurparturinn (af e-u)'. Notkun orðsins virðist vera nokkuð á reiki á síðustu árum og bregður fyrir í nýjum dæmum að því sé ruglað saman við hvorugkynsorðið lunga.

Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er uppruni orðsins óljós:

lungi k. (nísl.) 'það besta úr e-u'. Uppruni óviss. Hugsanlega tengt lunga (s.þ.) og upphafl. merk. þá 'það mýksta úr e-u', sbr. lungamjúkur. Tæpast nein tengsl við ungi, sbr. unginn úr e-u 'það besta úr e-u'. ...

Skýring Ásgeirs er í samræmi við skýringar í öðrum orðabókum, s.s. í Íslenskri orðabók en þar og í Orðabók Sigfúsar Blöndals er dæmið lunginn úr heyinu.

Af dæmum í söfnum Orðabókar Háskólans virðist merking orðsins vera nokkuð víðari en fram kemur í þessum skýringum. Þar er orðið er notað um bróðurpartinn af e-u, án þess að tiltekið sé að þar sé um besta hlutann að ræða, eins og í þessum dæmum úr ritmálssafni OH:
 • Ég veit ekki betur en ég hafi haft hann milli hnjákollanna lúngann úr nóttinni. (HKLKristn. 195)
 • Lungann úr 18. öldinni ríktu þar [þ.e. í Rússlandi] konur. (BergJMann., 327)
Við leit í textasafni Orðabókarinnar og á vefsíðum kemur í ljós að orðið er oftast notað um tíma eða óáþreifanleg fyrirbæri, en einnig um hluta af hópi o.fl. eins og kemur fram hér á eftir. Orðið er oftast haft með forsetningunni úr en í yngri dæmum bregður forsetningunni af einnig fyrir:

Um tíma:
lunginn úr deginum (úr síðdeginu, nóttinni, sólarhringnum, vetrinum, sumrinu, árinu, þeirri öld, tímabilinu)
Um hluta hóps:
lunginn úr íbúum byggðarinnar (úr liðinu, úr félaginu)
lunginn af yngri konum sveitarinnar (af ættkvíslinni)
Um hluta af ýmsu öðru tagi:
lunginn úr fjármálastarfsemi landsins (úr þjóðarauðnum, úr herkostnaði)
lunginn úr sögunni (úr umræðuefni dagsins, úr þessu bréfi, úr forngrískri stjörnufræði)
lunginn af tekjum ríkisins (af innflutningi landsmanna, af bókunum)

Í söfnum Orðabókarinnar eru engin dæmi um orðasambandið lungað úr e-u í sömu merkingu og lunginn úr e-u en slík dæmi eru auðfundin á vefnum með leitarvél á borð við Google. Dæmin eru oftast um tíma en en eitt dæmi fannst um meirihlutann af hóp:
 • Ég var ritsjóri ... lungað úr árinu ...
 • Um er að ræða barnagæslu sem verður opin lungað úr deginum ...
 • Vinnan sem tekur lungað úr deginum getur orðið að kvöl.
 • ... skrif hans [ná] yfir lungað úr tuttugustu öldinni.
 • ... hann þjálfar ... lungað úr hópnum ...
Þarna virðist hvorugkynsorðið lunga fá nýja merkingu, þ.e. upprunalegu merkinguna í karlkynsorðinu lungi, sem virðist ekki lengur vera mönnum tamt. Hámarki nær þessi merkingarflutningur milli orðanna þegar hvorugkynsorðið er haft í fleirtölu:
 • Jæja, nú eru lungun úr jólunum búin ... ég fór í fullt af jólaboðum ...

Heimildir
 • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
 • Íslensk orðabók - tölvuútgáfa. Edda hf. Reykjavík, 2000.
 • Sigfús Blöndal. 1920-1924. Íslensk-dönsk orðabók.
 • Söfn Orðabókar Háskólans.