lúxusflakk og lúxusflakkarar

Utanferðir embættismanna og annarra opinberra starfsmanna þykja stundum tíðari og kostnaðarsamari en góðu hófi gegnir eins og sjá má og heyra í ummælum manna í fjölmiðlum. Þá er ekki aðeins horft til kostnaðarins heldur er einnig dregið í efa að slíkar ferðir komi að tilætluðu gagni eða séu yfirleitt nauðsynlegar.

Þótt nú sé stundum kveðið fast að orði þegar þessi mál ber á góma var tónninn þó einatt enn hvassari áður fyrr, sérstaklega þegar ráðherrar áttu í hlut, svo að umræðan gat snúist upp í hörð pólitísk átök. Andinn í þeirri umræðu endurspeglast býsna vel í tveimur orðum sem nokkuð ber á í blaðaskrifum á tímabili, orðunum lúxusflakk og lúxusflakkari.  Í þeim býr áhersla á óhóf og munað en jafnframt er gefið í skyn að um sé að ræða hvimleiðan óþarfa og að sá sem í hlut á sé í raun ómagi á þjóðinni.

Orðin skjóta fyrst upp kollinum á prenti um miðjan fjórða áratug síðustu aldar. Haustið 1935 er í Morgunblaðinu fundið að því að forsætisráðherra hafi tvívegis farið utan á árinu. Greinin ber yfirskriftina „Förumenn ríkissjóðs og lúxusflakkarinn“. Þar er vikið að utanferðum annarra ráðherra með eftirfarandi ummælum:

þá er hitt áreiðanlega einsdæmi, með nokkurri menningarþjóð, að allir ráðherrar landsins sjeu þannig á flakki í framandi löndum, svo að segja taglhnýttir.

Harðast er þó sótt að Jónasi Jónssyni frá Hriflu vegna utanferða hans: 

Það á að kalla þennan lúxusflakkara tafarlaust heim. Ekki af því að hans sje saknað, heldur af því að ómagaframfæri er ódýrara hjer en á lúxushótelum erlendra stórborga.

Gjaldeyrisskortur þjóðarinnar býr að baki umræðunni á þessum árum og löngum síðan. Í grein í Þjóðviljanum árið 1939 er þess krafist að:

bundinn verði endir á meiningarlaust lúxusflakk hinna betri borgara um lönd og höf, sem hefur í för með sér geysilega sóun á þeim litla erlenda gjaldeyri, sem þjóðin aflar.

Íslenskir stjórnmálamenn taka sér nú naumast í munn orðin lúxusflakk og lúxusflakkari  í því skyni að klekkja á pólitískum andstæðingum. En orðin eru ekki með öllu horfin úr máli manna og gægjast nú fram í netheimum þegar býsnast er yfir ferðalögum manna í opinberum erindum.

 

Heimildir

Jón Hilmar Jónsson
febrúar 2012