vera við lýði

Óhætt mun að gera ráð fyrir því að flestir kannist við orðalagið að vera við lýði og merkingu þess, þ.,e. ‘að vera í (fullu) gildi, tíðkast, vera enn til’. En hvernig er þetta hugsað í öndverðu, hver er frummerkingin?

Orðasambandið er ekki fornt í málinu en kemur fyrst fyrir um miðja 18. öld og er orðið lýði þá ýmist skrifað með ‘ý’ eða ‘í’. Á 19. öld er þetta orðið mjög algengt og þá koma jafnframt fyrir afbrigðin standa við lýði og halda(st) við lýði auk hins venjulega vera við lýði sem algengt hefur verið allt til þessa (sjá dæmi í ritmálssafni Orðabókar Háskólans undir lýður).

Orðskipanin við lýði er svolítið óvenjuleg. Búast mætti við þolfallsmyndinni lýð, við lýð nema skilja eigi lýði sem þolfall fleirtölu.

Konráð Gíslason mun fyrstur manna hafa bent á það að orðalagið við lýði sé komið úr dönsku í íslensku. Hann segir svo í hinni dönsku orðabók sinni sem kom út árið 1851:

vedlige, ao., („við lýði“ afbakað úr danska orðinu), ... .
 
Í flestum íslenskum orðabókum er orðasambandið að finna undir orðinu lýður ‘fólk ...’. Í orðabók Blöndals er það t.d. skýrt í 3. lið orðsgreinarinnar lýður ... . Í þýðingu sinni notar Blöndal m.a. orðin „ved lige, ... .“ Í orðabók Menningarsjóðs er það sömuleiðis í orðsgreininni lýður ..., reyndar með spurningarmerki, ?vera við lýði en í þeirri bók táknar spurningarmerki framan við orð og orðasambönd að þar sé á ferðinni „vont mál, orð eða merking sem forðast ber í íslensku ... .“ Ritstjórinn, Árni Böðvarsson, getur þessa enn fremur í ORÐASKRÁ í bók sinni Íslenskt málfar (1992) og segir að orðasambandið „[sé] ekki nothæft í vönduðu máli.“ (bls. 87). Í orðabók Eddu (2002) er orðasambandið í orðsgreininni lýður ... en engin athugasemd gerð við notkun þess.
 
Halldór Halldórsson er fyrsti orðabókarhöfundurinn sem skilur orðmyndina lýði frá orðinu lýður. Í annarri útgáfu stafsetningarorðabókar sinnar (1968) hefur hann þetta í sérstakri grein:
 
lýði, vera við lýði, líkl. úr d. ved lige (t.d. holde ved lige), en áhrif frá lýður.
 
— Síðan er orðið lýður og skýring þess í annarri grein, á sínum stað í stafrófsröðinni.
 
Ekki eru allir fræðimenn sammála um þennan uppruna orðalagsins að vera við lýði. Í bók sinni, Mergur málsins (1993), kemst höfundurinn, Jón Friðjónsson, svo að orði er hann hefur skýrt merkingu, notkun og aldur orðatiltækisins e–ð er við lýði .:
 
Uppruni orðatiltækisins er óljós en hæpið að fyrirmyndin sé dönsk holde ved lige. Líkingin er trúlega dregin af því að e–ð tíðkast ‘meðal fólks’, sbr. samstæðuna lönd og lýðir. (bls. 416).

 

Heimildir

  • Árni Böðvarsson. Íslenskt málfar. Rvík 1992.
  • Halldór Halldórsson. Stafsetningarorðabók. 2. útg. Rvík 1968.
  • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. 2. útg. Rvík 1983.
  • Íslensk orðabók. 3. útg. Rvík 2002.
  • Jón G. Friðjónsson. Mergur málsins. Örn og Örlygur 1993.
  • Konráð Gíslason. Dönsk orðabók með íslenzkum þýðingum. Khöfn 1851.
  • Sigfús Blöndal. Íslensk-dönsk orðabók. Rvík 1920–1924.
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans

Gunnlaugur Ingólfsson
nóvember 2002