magasín

Nýlega hóf Dagblaðið að gefa út vikulegt fylgirit sem nefnist Magasín. Orðið magasín er ekki algengt í íslensku ritmáli þótt það heyrist oft í talmáli í ýmsum merkingum. Það er ekki að finna í orðabók Blöndals frá 1924, né heldur í viðbótarbindi þess verks frá 1963. Sama ár kom út 1. útgáfa Íslenskrar orðabókar handa skólum og almenningi, oft kölluð orðabók Menningarsjóðs, þar hefur orðið ekki fengið inni. Árið 1983 kom svo 2. útgáfa, aukin og bætt og þar er orðið að finna. Þar er það reyndar sett með spurningarmerki fyrir framan, ?magasín, en það merkir á máli ritsjórnar "vont mál, orð eða merking sem forðast ber í íslensku ...". Enn fremur er orðið tekið upp í íslenska orðsifjabók frá 1989, reyndar athugasemdalaust.

Ef litið er í seðlasafn Orðabókar Háskólans sést að orðið magasín kemur fyrir í íslensku þegar á 18. öld, nánar til tekið árið 1772 í svonefndri Stokkhólmsrellu eftir Hannes Finnsson og er ritgerð í dagbókarformi um ferð og dvöl Hannesar í Svíþjóð sumarið 1772. Það sést reyndar á rithætti orðsins að höfundur fer þarna með erlent orð en þegar um miðja 19. öld hefur orðið verið aðlagað íslenskri stafsetningu og beygingu: magasín, magasíni, magasínið, magasínin.

Í íslenskri orðsifjabók segir að orðið magasín sé tökuorð úr dönsku og er það greinilegt af elstu dæmunum. Reyndar er orðið þekkt í öllum Evrópumálum en franskan hefur miðlað því til annarra mála í álfunni en fengið það sjálf að láni úr arabísku. Orðið merkir þar upphaflega `geymslustað, vörugeymslu, birgðaskemmu'. En það hefur fengið ýmsar aðrar merkingar svo sem kunnugt er eins og t.d. `vöruhús; tímarit; skothylki eða geymir við byssu' og er gjarnan notað um margs konar geymslustað eða hirslu þar sem hlutum er þannig raðað eða fyrir komið að til þeirra má grípa fljótt og vel.