mistök

Svipmynd úr Íslensku orðaneti

Ýmislegt orðafar er haft um það sem aflaga fer í mannlífinu, og orðavalið hverju sinni endurspeglar að nokkru viðhorfið til þess sem um ræðir. Það ræðst m.a. af því hvernig litið er á orsakir og orsakavalda, ábyrgð og sök. Ef klaufaskapur er með í för getur axarskaft þótt við hæfi, fyrirhyggjuleysi kallar m.a. á orðið frumhlaup, og vanmat og dómgreindarleysi má undirstrika með orðinu glappaskot. Með orðinu óhapp er látið í ljós að ábyrgð og sök komi ekki við sögu heldur ráðist atburðir öðru fremur af tilviljun og óheppni. Í öðrum orðum eru ábyrgð og sök gildur þáttur þótt með ólíkum hætti sé. Orðin afglöp og vanræksla eru harla afdráttarlaus að þessu leyti, yfirsjón er mildara og nánast með afsakandi blæ. Gremja og vonbrigði eru samgróin orðinu klúður.
Almennasta og hlutlausasta orðið í þessum flokki er mistök, sem felur einfaldlega í sér að eitthvað hafi ekki tekist eins og ætlað var. Svo nærtækt og notadrjúgt sem þetta orð er í máli manna nú á dögum er svo að sjá sem það komi fremur seint til sögunnar, og nútímamerking orðsins virðist mótast á 19. öld.

Úr Íslensku orðanetiÍ Íslensku orðaneti sameinast fjölbreytt orðafar af því tagi sem fyrr var nefnt í hliðskipuðum orðasamböndum með orðinu mistök, og þar tengist það enn öðrum merkingarskyldum orðum. Þessi tengsl koma vel fram á meðfylgjandi mynd.

Úr Íslensku orðaneti.
Smellið á myndina til þess að stækka hana

 

Leiðin að merkingarsviðinu mistök, þar sem orðasambönd eru í fyrirrúmi, liggur um orð, orðastreng eða orðasamband. Hér er tekið dæmi af flettunni „gera mistök“. Þar koma fram flokkaðar upplýsingar um ólík merkingarvensl flettunnar:

  • merkingarlega náskyldar flettur með samstæðri setningargerð undir heitinu samheiti/skyldheiti, t.d. "gera afglöp“, „gera axarskaft“.
  • stóra heild sambanda sem eru hneppt saman sem hugtak undir lýsandi fyrirsögn, hér " gera mistök ". Orðasamböndin birtast í stafrófsröð en þeim má endurraða með því að smella á rofann "Sýna setningargerð".
  • skyld hugtök undir viðeigandi fyrirsögn, t.d. "fara ófarir", "ná <litlum, engum> árangri", "vera bráðlátur " o.fl. Ef smellt er á eitthvert hugtakið birtast flettur á því merkingarsviði.


Vefslóð Íslensks orðanets er www.ordanet.is.

Jón Hilmar Jónsson og Þórdís Úlfarsdóttir
maí 2010