móleður

Í Íslenskri orðabók (2002:1018) er að finna orðið móleður. Það er sagt merkja ‘biti á vegg sem þaksperrur hvíla á, vegglægja, lausholt, veggsylla’. Það er lítið notað nú og virðist hafa verið nokkuð staðbundið. Nokkur dæmi eru um orðið í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans og í tveimur þeirra kemur fram að orðið hafi verið staðbundið á Suðurlandi:
• Orðið móleður var á 18. öld brúkað sunnanlands í stað lausholts annars staðar.
• Mó-leðr. = silla. Sk.

Síðara dæmið er úr orðabókarhandriti Hallgríms Schevings kennara í Lærða skólanum og Sk merkir þar Skaftafellssýslur. Önnur dæmi þar sem með góðu móti er unnt að staðfæra benda til Suðurlands.

Björn M. Ólsen, fyrsti rektor Háskóla Íslands, safnaði orðum úr mæltu máli í lok 19. aldar og skráði í vasabækur sem varðveittar eru á orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Í vasabók nr. xvii er móleður annars vegar merkt Öræfum og hins vegar Hornafirði og í bók nr. ii er það merkt Suðurlandi.

Vasabók, sem merkt er nr. xxii, hefst á blaði sem á stendur: ,,Rangvella sive Idiomata Rangvallensium. Jónas Jonæus collegit 1884–85“. Jónas þessi er án efa Jónas Jónasson (1856–1918) sem oftast er kenndur við Hrafnagil í Eyjafirði. Hann var af norðlenskum ættum, stundaði nám við Reykjavíkurskóla og síðar Prestaskólann og lauk þaðan prófi 1883. Sama ár vígðist hann til Stóruvalla á Landi og þjónaði þeirri kirkju í rétt rúmt ár að hann fluttist norður í Grundarþing og settist að á Hrafnagili. Hann skrifaði hjá sér allnokkur orð sem hann heyrði á Suðurlandi og eitt þeirra var móleður sem hann sagði merkja ‘lausholt, sylla í baðstofu sem smávegis verður lagt á’. Við orðið kemur fram að Jónas hefur séð móleður skrifað múrleður í kirkjuvísitatíu og veltir hann því fyrir sér hvort múrleður standi fyrir múrlektur. Þar hefur hann rétt fyrir sér því að móleður, einnig til sem móletta, er ummyndað tökuorð úr dönsku murlægte. Það er aftur sett saman úr mur ‘múr’ og lægte ‘löng fjöl’ (ÁBlM 1989:631).

Í orðabók Sigfúsar Blöndals er móleður merkt Árnes-, Rangárvalla- og Skaftafellssýsum og styðst Sigfús mjög við vasabækur Björns M. Ólsens þegar hann merkir orð staðbundin.

Þórbergur Þórðarson hefur þekkt móleður úr heimasveit sinni. Á seðli í orðasafni hans, sem varðveitt er á orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, stendur að orðið sé sjaldgæft í Austur-Skaftafellssýslu og að aðeins aldrað fólk í Suðursveit þekki það. Þórbergur vann við orðasöfnun sína á fyrstu áratugum 20. aldar og virðist notkun orðsins þá að fjara út með breyttu byggingarlagi.

Heimildir:

  • ÁBlM=Ásgeir Blöndal Magnússon. 1969. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
  • Íslensk orðabók. 2002. Edda, Reykjavík.
  • Sigfús Blöndal. 1920–1924. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík.
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Seðlasafn Þórbergs Þórðarsonar.
  • Vasabækur Björns M. Ólsens.

Guðrún Kvaran
september 2009

Fleiri orðapistlar