morð og manndráp

Svipmynd úr Íslensku orðaneti

Málið býr yfir margbreytilegu orðafari sem lýtur að því að verða manni að bana. Meðal nafnorða um verknaðinn eru meginorðin dráp, manndráp og morð. Þessi orð eru öll fyrirferðarmikil í Íslensku orðaneti þar sem hvert þeirra um sig tengist fjölda merkingarskyldra orða í orðasamböndum og samsetningum. Merkingarlegur skyldleiki þeirra innbyrðis kemur skýrt fram í því hversu oft þau tengjast sömu fylgdarorðum í hliðskipuðum orðasamböndum (samböndum eins og morð og hermdarverk, hermdarverk og manndráp). Samanburður á orðunum manndráp og morð í slíkum samböndum leiðir í ljós að um fjórðungur fylgdarorðanna er sameiginlegur.

Úr Íslensku orðaneti
(smellið á myndina til þess að stækka hana)

Sýnishorn úr Íslensku orðaneti: orðasambönd sem tengjast orðunum 'morð' og 'manndráp'

Hluti af samanburðartöflunni kemur fram á myndinni, þar sem táknið P vísar til sambanda af þessu tagi (orðapara). Í miðdálkinum eru fylgdarorð sem dæmi eru um með báðum orðunum. Orðin vinstra megin eru sótt í dæmi með orðinu morð, hægra megin er hins vegar orð sem í orðapörum tengjast orðinu manndráp. Samanburðurinn sýnir ekki áþreifanlegan merkingarmun á orðunum morð og manndráp.

Slíkur munur er hins vegar skýrari þegar orðin morð og dráp eru borin saman. Þar endurspeglast sérstaða orðsins dráp í fylgdarorðum eins og aflífun, deyðing, eyðing, nautaat, veiðiskapur og veiðiþjófnaður.

Á merkingarsviðinu fer mikið fyrir sögnum og sagnasamböndum og öðrum merkingarbærum orðasamböndum. Í orðanetinu liggur leiðin að þeim um orð, orðastreng eða orðasamband. Hér er tekið dæmi af flettunni drepa <hann, hana; skepnuna>. Þar koma fram flokkaðar upplýsingar um ólík merkingarvensl flettunnar:

  • stóra heild sambanda sem eru hneppt saman sem hugtak undir lýsandi fyrirsögn, hér "drepa <hann, hana; skepnuna>". Orðasamböndin birtast í stafrófsröð en þeim má endurraða með því að smella á rofann "Sýna setningargerð". Setningargerðin endurspeglar að nokkru leyti náinn merkingarskyldleika sambandanna.
  • skyld hugtök undir viðeigandi fyrirsögn, t.d. "gera atlögu að <óvinunum>", "gera árás", "taka <fangann> af lífi" o.fl. Ef smellt er á eitthvert hugtakið birtast flettur á því merkingarsviði.

Svo að aftur sé vikið að nafnorðunum á orðið morð sér samstofna samsvörun í öðrum norrænum og germönskum málum, mord í dönsku, norsku og sænsku og murder í ensku. Af sömu rót er orðið mors 'dauði' í latínu (sjá nánar Íslenska orðsifjabók). Orðið dráp stendur í hljóðskiptum við sögnina drepa þar sem frummerkingin samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er 'berja, drepa'. Hér eru einnig samstofna samsvaranir við sögnina og nafnorðið í öðrum norrænum málum, og af sömu rót er þýska sögnin treffen 'hitta'.

Heimildir
• Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík 1989.
www.timarit.is

Vefslóð Íslensks orðanets er www.ordanet.is.

Jón Hilmar Jónsson og Þórdís Úlfarsdóttir
  október 2010