mörsugur

Mörsugur er þriðji mánuður vetrar samkvæmt gömlu misseratali. Hann hefst miðvikudaginn í níundu viku vetrar á tímabilinu 21.-27. desember. Honum líkur á miðnætti fimmtudaginn í þrettándu viku vetrar á tímabilinu 19.-26. janúar. Þá tekur þorrinn við.

Mánaðarheitið mörsugur er nefnt í svokallaðri Bókarbót sem er viðauki við rímtal frá 11. öld en varðveitt í handriti frá því um 1220. Í Eddu Snorra Sturlusonar er sami mánuður nefndur hrútmánuður. Þess getur t.d. Páll Vídalín í Skýringum við fornyrði lögbókar:

Þriðji mánuður í vetri kemur miðvikudag; hann heitir í Bókarbót mörsugur, en í Eddu hrútmánuður; hann skal telja þrítugnættan, og enda fimtudag að aptni, þá er þorri gengur inn eptir sínum föstudegi. Þennan kallar séra Oddur Kristmánuð (bls. 575).

Oddur sá sem nefndur er er séra Oddur Oddsson á Reynivöllum í Kjós. Orðið mörsugur er sett saman úr orðunum mör 'innanfita í kviðarholi dýra' og sugur sem leitt er af sögninni sjúga, þ.e. 'sá sem sýgur mörinn'.

Heimildir
  • Ritmálsskrá OH
  • Páll Vídalín. 1849-1854. Skýríngar yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast. Reykjavík.