á næstunni

Í nútímamáli vísar orðasambandið á næstunni ótvírætt til framtíðar, á við það sem mun gerast innan tiltölulega skamms tíma. Í eldra máli, allt fram á 19. öld a.m.k., vísaði þetta orðasamband hins vegar til nálægðar í þátíð.

Í frásögn frá 19. öld er presturinn í Saurbæ látinn sneiða að konu sinni, sem undrast að hann skuli hafa látið af smjöráti, með þessum orðum: Einhver verður að gjalda í Saurbæ, því ekki fórst þú sjálf ríflega með smjörið á næstunni. Á þennan veg er orðasambandið skýrt í Orðabók Jóns Ólafssonar úr Grunnavík og í Orðabók Björns Halldórssonar. Í Orðabók Blöndals og Orðabók Menningarsjóðs (síðar Orðabók Eddu) er beggja merkinganna getið.

Raunar örlar á öðrum afbrigðum þessa orðasambands og þá í hinni eldri merkingu: Nú um næsturnar hefi eg engu að kalla safnað af sögum, segir séra Jón Norðmann í bréfi til Jóns Árnasaonar þjóðsagnasafnara árið 1865, og á 17. öld kemur fyrir afbrigðið um næstunni í sömu merkingu. Loks er að nefna afbrigðið upp á næstuna sem heimild er um í safni Orðabókar Háskólans og talið er merkja hið sama og upp á síðkastið. Vísun til fortíðar er annars ráðandi í þessum orðstofni í eldra máli.

Í fornmáli hefur næstum merkinguna ´síðast': Svo reiður sem jarl var næstum, þá mun hann nú vera hálfu reiðari, er Þráinn Sigfússon látinn segja í Njálu. Þetta hlutverk höfðu einnig myndirnar næst og næsti lengi fram eftir, jafnvel fram á 20. öld. Í frásögn eftir Skúla Gíslason frá 19. öld, sem prentuð er í Sagnakveri hans, segir t.d.: fyrir næstu aldamót (og er átt við aldamótin 1800) veittust Skagamenn að einu bjarndýri og drápu það, og í líkræðu frá lokum 18. aldar er sagt um hinn látna: um nærstu 6. Ar hefur hann varla Roolfær vered..

Hin breytta tímavísun í þessum orðstofni er athyglisverð, og óvenjulegt er að föst málkerfisleg merking snúist þannig nánast upp í andhverfu sína, eins og hér á sér stað. Má velta því fyrir sér hvort slíkar málbreytingar næðu fram að ganga nú á tímum ef á kreik kæmust.