nýyrði

Orðið nýyrði samsvarar að miklu leyti erlenda orðinu neologism(e) en hefur eigi að síður nokkuð aðra tilvísun. Hér kemur einkum til það sérkenni íslensks málsamfélags að lögð hefur verið sérstök áhersla á að mynda skuli ný orð úr innlendu (arfteknu) efni fremur en orðstofnum sem fengnir eru úr erlendum málum. Fyrir vikið þarf íslenskan sérstakt heiti um nýtt orð sem er skilgreint m.a. þannig að það sé að forminu til úr eldri íslenskum orðhlutum. Orðið nýyrði er venjulega haft í þeirri merkingu og þar með er komin aðgreining frá nýjum orðum í íslensku sem gerð eru úr erlendum efniviði (tökuorðum, aðkomuorðum).

Í Handbók um málfræði eftir Höskuld Þráinsson segir (1995:109):

Með NÝYRÐI er átt við nýtt orð, oftast orð sem hefur verið myndað sérstaklega til þess að tákna eitthvert nýtt hugtak eða koma í staðinn fyrir erlent orð um einhverja nýjung [...] Dæmi: þota (myndað þegar slíkar flugvélar urðu algengar), tölva (myndað þegar tölvur fóru að flytjast til Íslands)[.]

Hér er að vísu ekki tekið beinlínis fram að orðstofnarnir þurfi að vera innlendir til að nýtt orð kallist nýyrði. Það má þó ráða af dæmunum sem eru sýnd og einnig af því að tilgreint er að tilgangur með nýyrði sé oftast m.a. sá að það komi í staðinn fyrir erlent orð.

Mikinn og greinargóðan fróðleik um nýyrði í íslensku frá ýmsum sjónarhornum og með fjölda dæma má finna í kafla Ágústu Þorbergsdóttur, „Nýyrði“, í Handbók um íslensku (2011). Þar er gengið út frá því að með nýyrði sé átt við „nýtt orð í orðaforða tungumáls, ýmist nýmyndað orð eða gamalt orð sem er notað í nýrri merkingu eða á nýjan hátt“ (2011: 333) en tökuorð eru undanskilin í umfjölluninni.

Orðið nýyrði hafði svolítið breytilega tilvísun í skrifum málfræðinga á 20. öldinni.

Framan af var nýyrði (einnig nýgervingur og nýheiti) haft um hvers kyns ný orð úr innlendum orðhlutum en þegar leið á 20. öldina má greina tvo ólíka strauma í notkun orðsins.

Annars vegar má sjá aukna tilhneigingu til að nota orðið nýyrði aðeins um sum ný orð úr innlendum efniviði. Halldór Halldórsson gerði svofelldan greinarmun á nýjum orðum („öll orð, sem tekið er að nota“) og nýyrðum:

Samkvæmt mínum skilningi eru aðeins sum ný orð nýyrði, aðallega þau, sem tákna hugtök, tæknileg, fræðileg og félagsleg, svo og nöfn á nýjum hlutum og fyrirbærum. Auk þess þurfa nýyrði ekki að vera ný orð. Til þeirra tel ég gömul orð, sem gefin hefir verið ný merking, t. d. vél“ (Þörf á nýyrðum og sigurlíkur þeirra, Móðurmálið, 1987: 93).

Í greiningu Halldórs liggur sá skilningur að nýyrði séu orð sem ætla má að hafi orðið til við nokkra yfirlegu eða lærða orðmyndun (t.d. hönnuður, mjólkurferna o.fl.). Þar með nær orðið nýyrði ekki eða síður til orða sem verða til við virka orðmyndun né til augnablikssamsetninga (hér er átt við orð á borð við sjónvarpsstóll, kattavinafélagsárgjald o.s.frv.).

Í grein Jóns Hilmars Jónssonar, Hefð og hneigð í íslenskri orðmyndun (1988), er orðið nýyrði haft aðeins um nýsamið orð „sem styðst við tilvísun erlenda orðsins (hugtakið) fremur en búning þess“ (1988: 6). Nýyrði eru þá frumsamin íslensk orð, ef svo má segja, t.d. flugfreyja og gervitungl, en hvorki tökuþýðingar (þ.e. orð á borð við t.d. heimasíða, sbr. e. home page) né nýmerkingar (t.d. orðið vél sem merkir í nútímamáli ‚mótor, maskína‘ en áður fyrr ,listbrögð, svik‘).

Hin tilhneigingin, sem vart verður í notkun orðsins nýyrði á síðari hluta  20. aldar, var í hina áttina ef svo má segja, þ.e. að víkka merkinguna út þannig að nýyrði taki til alls konar nýrra orða hvort heldur orðstofnarnir eru innlendir eða erlendir. Jón Helgason gerði t.a.m. ráð fyrir því í greininni Hrein íslenzka og miður hrein (1954) að tökuorð væru ein tegund nýyrða. Fleiri (þar á meðal undirritaður 1990) hafa farið sömu leið. Það kemur heim og saman við almennan skilning á erlenda orðinu neologism(e) að hafa nýyrði þannig um nýmynduð orð hvort heldur er úr innlendu efni eða tökustofnum en þessi orðnotkun tíðkast þó almennt ekki í umfjöllun um ný orð í íslensku. Algengast mun vera að gera greinarmun á nýyrðum og tökuorðum, sbr. áðurnefnda skýringu úr Handbók um málfræði (1995), og t.a.m. Íslenska tungu II eftir Guðrúnu Kvaran (2005: 357).

Ari Páll Kristinsson
mars 2014