ofbeldi

Svipmynd úr Íslensku orðaneti

Ofbeldi er oft áberandi umfjöllunar- og umræðuefni í samfélaginu. Um það efni og hugtakið sem þar er á ferðinni er viðhaft margbreytilegt safn íslenskra orða og orðasambanda. Hér verður brugðið upp nokkrum svipmyndum af þessu orðafari eins og það birtist í Íslensku orðaneti, staldrað við fáein meginorð hugtaksins og athugað hvernig þau tengjast öðrum merkingarskyldum orðum og samböndum.

Mynd 1
(smellið á myndina til þess að stækka hana)

Sjálft orðið ofbeldi á sér fjölda skyldra orða, sem einna skýrast koma fram í hliðskipuðum orðasamböndum. Hluta þeirra má sjá í listanum hér til vinstri (Mynd 1). Í samböndum af þessu tagi tengist orðið ofbeldi ekki aðeins stökum orðum heldur er einnig um að ræða fleiryrt orðasambönd á merkingarsviðinu eins og greina má vinstra megin á myndinni (Mynd 2).

Mynd 2
(smellið á myndina til þess að stækka hana)

 

Um þann sem beitir ofbeldi eru m.a. höfð orðin ofbeldismaður og ofbeldisseggur. Notkun þeirra dregur fram samhengi við önnur orð af sama eða svipuðu merkingarsviði eins og sýnd eru dæmi um á næstu mynd (Mynd 3). Samanburður á orðunum tveimur staðfestir náinn skyldleika þeirra þar sem þau eiga sér fjölmörg sameiginleg fylgdarorð (í miðdálkinum á mynd 4).

Mynd 3
(smellið á myndina til þess að stækka hana)

 

 

 

 

Mynd 4
(smellið á myndina til þess að stækka hana)


Mynd 5
(smellið á myndina til þess að stækka hana)

Um þann sem hneigist til ofbeldis er m.a. haft orðið ofbeldisfullur. Það orð dregur að sér ýmis merkingarskyld lýsingarorð í hliðskipuðum samböndum eins og fram kemur á þessari mynd (Mynd 5).

 

 

Meðal sagna og sagnasambanda gætir mikillar fjölbreytni á merkingarsviðinu. Það orðafar má nálgast um orð, orðastreng eða orðasamband á vefsíðu orðanetsins. Hér er tekið dæmi af flettunni „beita ofbeldi“. Þar koma fram flokkaðar upplýsingar um ólík merkingarvensl flettunnar:

  • stóra heild sambanda sem eru hneppt saman sem hugtak undir lýsandi fyrirsögn, hér "beita <hann, hana> ofbeldi". Orðasamböndin birtast í stafrófsröð en þeim má endurraða með því að smella á rofann "Sýna setningargerð". Setningargerðin endurspeglar að nokkru leyti náinn merkingarskyldleika sambandanna.
  • skyld hugtök undir viðeigandi fyrirsögn, t.d. "gefa <honum, henni> á kjaftinn", „berja <hann, hana>" o.fl. Ef smellt er á eitthvert hugtakið birtast flettur á því merkingarsviði.

Orðið ofbeldi er samkvæmt Íslenskri orðtíðnibók af sömu rót og lýsingarorðið baldinn. Allmörg dæmi eru um orðið í fornmáli (frá því um 1300 og síðar) eins og rakið er á vefsíðu fornmálsorðabókarinnar norrænu, Ordbog over det norrøne prosasprog. Af þeim má ráða að eldri merking orðsins hafi verið `dramb, oflæti` (sbr. líka orðabók Fritzners) en nútímamerkingin virðist þó einnig komin til sögunnar í fornu máli.

Vefslóð Íslensks orðanets er www.ordanet.is.

Heimildir
• Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
• Fritzner, Johan. 1883-1896. Ordbog over det gamle norske Sprog. Kristiania 1867.
Ordbog over det norrøne prosasprog. http://dataonp.hum.ku.dk/index.html
www.timarit.is
 

Jón Hilmar Jónsson og Þórdís Úlfarsdóttir
nóvember 2010