óráðsía

Þessi misserin heyrist oft talað um óráðsíu- og óreiðufólk. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru nokkur dæmi um orðið óráðsía allt frá miðbiki 19. aldar fram til þessa. Enn fremur er þar að finna nokkrar samsetningar með óráðsía að fyrri lið svo sem til dæmis óráðsíubelgur, óráðsíugepill og óráðsíumaður:

1)  lukkuspilið (Lotterie) … sem ekki verður komið af, þó skaðlegt sje, vegna fásinnu og óráðsíu manna. Fjölnir V I, 102

2)  þar [: í Keflavík] var þá sukk mikið og óráðsía, sjávarafli mikill og eyðslusemi, eins og Íslendingum er tamt. Benedikt Gröndal Rit IV, 349

Einnig eru dæmi þess að orðið óráðsía eitt og sér sé haft um persónu sem hefur allt í sukki:

3)  burt … frá bónda sem enginn bóndi væri, heldur óráðsía og útilegumaður Andvari 1962, 139

En hvernig er orðið óráðsía til komið? Í pistli um orðið barnásía (Gunnlaugur Ingólfsson 2010: 20–21) er vikið að því að örfá orð í málinu eru mynduð líkt og þessi tvö, með hinu framandlega viðskeyti -sía, t.d. fundátsía og vísitasía sem eru bæði af erlendum uppruna. Í orðabók sinni, Lexicon Islandicum, tilfærir Jón Ólafsson úr Grunnavík orðið óráðsía í myndinni órássía og þýðir sem ‘orðaflaumur’(sermo profluus) og segir að það tíðkist meðal alþýðu manna. Enn fremur tilgreinir hann orðalagið það varð allt í órássíu ‘allt lenti í tómu kjaftamasi’ og tengir orðið við latneska orðið oratio ‘ræða’. Ásgeir Blöndal Magnússon hefur fjallað um þetta í einum pistla sinna í þættinum „Úr fórum orðabókarinnar“ (1963) og telur að Grunnavíkur-Jón hafi hér rétt fyrir sér. Ásgeir segir að orðið sé vísast komið úr máli skólapilta og merkingarþróunin sé auðskilin. Fyrst hafi orðið merkt ‘ræðuhöld, orðaflaum’ og orðalagið, allt í órássíu, ‘ræðuhöld (svo að ekkert varð úr verki)’ en alþýða manna hafi tengt fyrri lið orðsins við óráð og þannig hafi óráðsía fengið merkinguna ‘sukk, eyðslusemi’. Ásgeir tekur svo skýringu Jóns Grunnvíkings upp í orðsifjabók sína.

Heimildir

  • Andvari. Nýr flokkur – Sumar 1962 –. Reykjavík: Tímarit Bókaútgáfu Menningarsjóðs og Hins íslenzka þjóðvinafélags.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1963. ‘Úr fórum Orðabókarinnar III’. Íslenzk tunga. 4. Árgangur 1963. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Félag íslenzkra fræða.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans.
  • Benedikt Gröndal (Sveinbjarnarson). Ritsafn. Fjórða bindi. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja h.f. 1953.
  • Fjölnir. Árrit handa Íslendíngum. Fimmta ár, 1839. Kaupmannahöfn: (Prentað hjá) J. D. Kvisti.
  • Gunnlaugur Ingólfsson. 2010. ‘Óráðsía í barneignum’. Fáum mönnum er Kári líkur. Nítján kárínur gerðar Kára Kaaber sextugum 18. febrúar 2010. Reykjavík: Menningar- og minningarsjóður Mette Magnussen.
  • Jón Ólafsson. Lexicon Islandicum (í handriti, AM 433 fol.)

Gunnlaugur Ingólfsson
október 2010