óstjórn og stjórnleysi

Orðunum óstjórn og stjórnleysi bregður oft fyrir í máli manna, ekki síst þegar stjórnmál og stjórnmálaástandið ber á góma. Orðin eru merkingarlega náskyld og geta jafnvel talist samheiti, eins og endurspeglast í gerð þeirra og orðmyndun. Bæði koma þau fyrir í fornmáli þótt dæmin séu ekki mörg. Stjórnleysi kemur fyrir í handriti Breta sögu frá miðri 14. öld og óstjórn í handriti Nikulásar sögu erkibiskups frá fyrri hluta 15. aldar, eins og sjá má í dæmasafni norrænu fornmálsorðabókarinnar Ordbog over det norrøne prosasprog á vefnum. Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru elstu dæmi um orðin frá lokum 18. aldar (stjórnleysi) og upphafi þeirrar 19. (óstjórn). Elstu dæmin þar vitna glöggt um merkingarskyldleika orðanna við erlenda orðið anarkí:

  • af óstýrilátri alþýdu, er sækiz eptir stiórnleysi (Anarchia), og álítr freku sem frelsi. (LFR IV, 249)
  • Ef allir vilia ráda og taka þátt í stiórninni verdur hún almúgastiórn (oclocratia) en má þó heldur nefnast óstiórn (anarchia) og er þá ríkid á fallanda fæti. (OddsLand I, 191)
  • Anarchie, [ [...]] stjórnleysi, óstjórn. (OddsOrð , 9)

Fyrsta dæmið er úr Ritum lærdómslistafélagsins, næst er dæmi (hér aukið) úr Landaskipunarfræði Gunnlaugs Oddssonar frá því um 1820 og síðasta dæmið er úr dansk-íslenskri orðabók sama höfundar frá árinu 1819. Náið samband orðanna á þessu skeiði kemur m.a. fram í notkun þeirra sem hliðskipaðra samheita í þessu dæmi úr Nýjum félagsritum:

  • sumir munu aptur vera hræddir við stjórnleysi eður óstjórn. (NF 1841, 116)

Tengslin við merkingu orðsins anarkí hafa haldist í orðinu stjórnleysi, eins og fram kemur í afleiddum orðum eins og stjórnleysingi og stjórnleysisstefna, þótt orðið sé ekki bundið við þá merkingu. Orðið óstjórn hefur hins vegar ekki haldið þeim beinu tengslum en merkingin er vissulega af sama toga.

Í Íslenskri orðabók eru orðin skýrð með ólíkum hætti. Í skýringu á meginmerkingu orðsins óstjórn eru aðgreind tvö blæbrigði, öðru er lýst með samheitinu „stjórnleysi“, hinu með lýsingunni „vond stjórn, illt stjórnarfar“. Við stjórnleysi er hins vegar látið nægja að lesa í orðmyndunina með skýringunni „það að vera án eðlilegrar stjórnunar, stjórnlaus“. Þessar skýringar mega vel teljast bærilega lýsandi, einkum um orðið óstjórn, en orðabókartextinn varpar litlu ljósi á merkingarsamband orðanna og stöðu þeirra innan orðaforðans.

Gögn um notkun og notkunarsambönd orðanna tveggja í Íslensku orðaneti , sem í þessu tilviki eru einkum sótt til textasafns Landsbókasafns – Háskólabókasafns á vefsíðunni Tímarit.is, staðfesta náinn merkingarskyldleika þeirra, um leið og þau veita innsýn í afstöðu þeirra til annarra orða á sama eða líku merkingarsviði. Bregða má upp samanburði á safni lykilorða þeirra í orðasamböndum, eins og sýnt er á myndinni. Mest fer fyrir tengslum í orðapörum með tengiorðinu og, samböndum eins og óstjórn og öngþveiti, lausung og stjórnleysi (sem auðkennd eru með teikninu P (smellið á myndina til þess að stækka hana)). Á myndinni kemur fram að orðin eiga sér rúmlega 100 sameiginleg lykilorð (orð sem höfð eru með þeim báðum í gagnasafni orðanetsins), önnur lykilorð koma aðeins fram með öðru þeirra og þar er tölulegt jafnvægi á milli orðanna tveggja.

Út frá gögnum orðanetsins má gera annars konar samanburð á notkunarmynstri orðanna sem skýrir stöðu þeirra gagnvart öðrum merkingarskyldum orðum og um leið samband þeirra innbyrðis. Þá er athugað í hve mörgum tilvikum einstök lykilorð þeirra í orðapörum koma fram í sams konar samböndum með sömu fylgdarorðum, t.d. hvort og þá hversu oft orðið öngþveiti (sbr. óstjórn og öngþveitI) myndar pör með sömu orðum og orðið óstjórn. Kjarni þess samanburðar er dreginn fram á næstu mynd (smellið á myndina til þess að stækka hana), þar sem óstjórn er lýst vinstra megin og stjórnleysi hægra megin. Í fremsta tölureitnum er tilgreindur fjöldi orðapara með orðinu sem verið er að athuga, í næsta reit er fjöldi orðapara með orðinu sem það er borið saman við og í þeim aftasta kemur fram hversu mörg sameiginleg fylgdarorð orðin eiga sér í slíkum samböndum. Náin tengsl orðanna óstjórn og stjórnleysi fá skýra staðfestingu af þessum samanburði , þar sem þau eru í efsta sæti hvort með öðru og eiga sér 98 sameiginleg lykilorð. Samanburður á öðrum orðum í 15 efstu sætunum sýnir að þar eru nánast sömu orðin á ferðinni (að tveimur undanskildum) og sú mynd er áþekk þegar litið er til orða í næstu sætum.

Þessi samanburður vitnar enn skýrar um merkingarsamband orðanna um leið og hann dregur fram hvaða orð standa þeim merkingarlega næst. Í heild tekur samanburðurinn til u.þ.b. 380 orða sem með ýmsum hætti eiga skylt við merkingu orðanna óstjórn og stjórnleysi og í sameiningu mynda samstætt safn orða til frekari merkingargreiningar.

Heimildir
Íslenskt orðanet (gagnasafn).
Íslensk orðabók. 2002. Ritstjóri Mörður Árnason. 3. útgáfa. Edda, Reykjavík.
Ordbog over det norrøne prosasprog. (Vefsíða: http://dataonp.hum.ku.dk/index.html)
Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
• Tímarit.is (http://timarit.is).

Jón Hilmar Jónsson og Þórdís Úlfarsdóttir
maí 2011