óþarfi

Sum orð eru athyglisverð vegna þess hversu lengi þau bera með sér andblæ þeirra aðstæðna og viðhorfa sem á sínum tíma mótuðu notkun þeirra og merkingu. Nafnorðið óþarfi er forvitnilegt í þessu samhengi að því leyti að í notkun þess gægist fram lífsviðhorf og gildismat sem fremur rímar við liðna tíð en nútímann.

Elstu dæmi um orðið óþarfi í ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru frá 18. öld. Þar er áberandi það merkingarbrigði sem í Íslenskri orðabók fær skýringarorðin "munaður, ónauðsynlegur varningur":
 • Óþarfa í kaupstöðum, klæðakaupum, brennivínskaupum vildi eg biðja mína sýslubúa sem mest að halda sér frá.
 • allur þorri okkar útlendu vörukaupa er tómur óþarfi.
 • Þegar freistni kom að mjer að kaupa einhvern óþarfann.
Hér má vísa til hinnar kunnu sögupersónu Möllers kaupmanns í Pilti og stúlku Jóns Thoroddsens. Um hann segir svo í sögunni:

Viðsjáll þótti bændum hann í kaupum, og sjaldan hafði hann mikið af nauðsynjavörum, en jafnan hafði hann nægtir af klútum og öðrum óþarfa og sá ávallt svo um, að hann hefði það, sem aðrir höfðu ekki af þess háttar, og því varð sjaldan snúið sér í búð hans fyrir kvenfólki.

Þessi merking orðsins er m.a. meitluð í eftirfarandi málshætti sem skráður er í málsháttasafni Hallgríms Schevings:
 • sá kaupir flestan óþarfann, sem fæst hefur fyrir að gefa.
Þessi merking orðsins kemur einnig fram í ýmsum samsetningum, svo sem í orðunum óþarfakaup og óþarfavara:
 • Hvílíka ólukku og útörmun hefir okkar vesala land liðið fyrir sinn brennivínsdrukk, tóbaksbrúkun og óþarfakaup.
 • Það eina sem eg er hræddur um að fjölgun smásala auki aptur, eru óþarfakaupin.
 • óvíst er um næga aðflutnínga á alls konar nauðsynjavörum, en á óþarfavörunum mun sízt verða skortur.
 • það væri undarleg mótsögn, að vilja ekki hafa toll á slíkri óþarfavöru, sem gosdrykkir eru.
Nú á dögum eru ekki uppi eins afdráttarlausar skoðanir á því hvað telja skuli til óþarfa og óþarfavöru og fram koma í ofangreindum dæmum, og í auglýsinga- og markaðssamfélagi nútímans er slíkt mat reyndar varla gilt nema að því leyti sem það snertir afstöðu hvers og eins til eigin þarfa.

Í ofangreindri merkingu er vísað til þeirra þarfa sem varða áþreifanlega hluti. Jafnframt því sem orðið endurspeglar fordæmandi afstöðu til þess sem við er átt sveigist málnotkunin frá hinu almenna í áttina að hinu tiltekna og orðið fer að taka á sig merkinguna "munaðarvara". En þegar viðhorf samfélagsins breytast og það sem vísað er til er ekki lengur fordæmt á sama hátt og áður er fótunum að vissu leyti kippt undan notkun orðsins í þessari merkingu því fordæmingin sem í því felst er eftir sem áður fyrir hendi.

Þessu er öðruvísi háttað þegar orðið vísar til þarfa sem bundnar eru óáþreifanlegum hlutum, athöfnum eða verknaði af einhverju tagi. Þar helst hin almenna merking, sem m.a. endurspeglast í eftirfarandi dæmum úr textasafni Orðabókarinnar:
 • Skipstjórinn taldi óþarfa að hafa samband við Gæsluna.
 • Allt er þetta dapurlegt mál, sem óþarfi er að rekja í einstökum atriðum eina ferðina enn.
En einnig hér er persónuleg afstaða blandin fordæmingu ríkur þáttur í notkun orðsins. Það á sérstaklega við þegar í orðinu felst óbein ábending til viðmælandans um eitthvað sem mælandanum líkar ekki:
 • Það er óþarfi að reiðast svona þó ég minnist á þetta við þig.
 • Það er óþarfi að láta okkur bíða allan þennan tíma.
Notkun orðsins í þessari merkingu er þó ekki með öllu óháð breytingum á tíðaranda. Það á við um þá venju að bregðast við boði um greiðasemi og góðgerðir með orðunum það er nú (alveg/alger) óþarfi. Nú heyrist æ sjaldnar tekið svo til orða enda er sú uppgerðarhæverska sem í orðunum felst ekki lengur í tísku.

Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
 • Textasafn Orðabókar Háskólans.
 • Íslensk orðabók. Ritstjóri: Mörður Árnason. 3. útgáfa, 2002. Edda, Reykjavík.