sitja pal

Á einum tveimur stöðum í verkum Halldórs Laxness kemur fyrir orðasabandið að sitja pal í merkingunni `sitja fast við verk´. Þetta orðalag notar hann m.a. á einum stað í Íslendingaspjalli:

Þó ánægjulegt sé að vita af sjö úngum lærdómskonum dönskum sitja pal í Árnasafni að skýra og gefa út íslenskar skinnbækur, þá mundi ekki hafa spilt gleði minni að vita þó ekki væri nema af einni stúlku íslenskri sem þætti taka því að leggja hönd að slíku verki. (Íslspj. 22 (leturbr. mín)).

Enn fremur notar hann sama orðasamband í þýðingu sinni á Fjallkirkjunni eftir Gunnar Gunnarsson:

Þarna sat ég pal, þarna samdi ég skáldsöguna mína. (Fjallk. 1951, 615 (leturbr. mín)).

Önnur dæmi um þetta er ekki að finna í fórum Orðabókar Háskólans né heldur í tiltækum orðabókum prentuðum. Ekki verður nú séð hvaðan Halldór hefur haft þetta orðasamband. Ekkert í hinum danska texta Gunnars gefur tilefni til þessa orðalags:

Dér sad jeg... [...] Der sad jeg, der skrev jeg min Roman. (Den uerfarne Rejs 174).

Hér er einungis talað um að þarna hafi hann skrifað söguna sína. Í hinni íslensku gerð Fjallkirkjunnar, eins og Gunnar gekk frá henni, stendur eftirfarandi:

Þarna við skrifborðið sat ég meginið úr deginum; þar varð sagan mín til. (Fjallk. 1981, 94).

Hér er textinn aukinn orðalaginu meginið úr deginum eins og um einhvers konar viðbrögð Gunnars við orðalagi Halldórs, að sitja pal, sé að ræða.

Orðið pal eitt og sér kemur nokkrum sinnum fyrir í íslenskum ritum og hefur ratað inn í orðabækur. Það merkir `vandræði, eymdarástand´ og kemur einnig fyrir sem seinni liður samsetninga eins og eymdapal og raunapal. Í orðabók Blöndals er gefið dæmi um orðið í sambandinu allt er í pali, `allt er í voða, allt er í niðurlægingu´.

Í Íslensku orðtakasafni fjallar Halldór Halldórsson um orðið pal í áðurgreindu sambandi, allt í pali. Hann bendir á að í skyldum grannmálum komi sama orð fyrir í samböndum sem merkja `að vera óhagganlegur´, t.d. í norsku vera/sitja pal, dönsku stå pal o.s.frv. Enn fremur að orðtökin eigi rót sína að rekja aftur í lágþýsku, pal staan. Þar merkir pal `stoppari eða hak í vindu eða tannhjóli´. Þótt Halldór Halldórsson kveði ekki upp úr um skýringu gætu báðar merkingarnar, `aumt ástand (allt stopp, í uppnámi)´ og `langar setur við verk´, verið runnar frá orðalaginu pal staan. (Sjá þó efasemdir Ásgeirs Bl. Magnússonar í Íslenskri orðsifjabók (undir pal, bls. 698-99).)

Hvort Halldór Laxness hefur hent þetta orðalag úr grannmálunum og notað fyrstur í íslensku máli verður ekkert fullyrt að svo komnu.

Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Ásgeir Bl. Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík 1989.
 • Den uerfarne Rejs.: Sjá Gunnar Gunnarsson.
 • Fjallk.: Sjá Gunnar Gunnarsson.
 • Gunnar Gunnarsson. Fjallkirkjan. Halldór Kiljan Laxness íslenzkaði. Helgafell. Reykjavík 1951.
 • Gunnar Gunnarsson. Fjallkirkjan III. [Fjórða prentun]. Almenna bókafélagið. Reykjavík 1981.
 • Gunnar Gunnarsson. Den uerfarne Rejsende. Af Uggi Greipssons Optegnelser. Khavn 1927.
 • Halldór Halldórsson. Íslenzkt orðtakasafn. 3. útgáfa aukin og endurskoðuð. Almenna bókafélagið. Reykjavík 1991.
 • Halldór Laxness. Íslendíngaspjall. Helgafell. Reykjavík 1967.
 • Íslspj: Sjá Halldór Laxness.
 • Sigfús Blöndal. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík 1920-24.