parís

Flestir þekkja líklega parís, eða paradís eins og hann var oft nefndur áður fyrr, en um er að ræða leik sem barst hingað frá Danmörku. Þar í landi er hann kallaður paradis.

París er vanalega teiknaður á stétt eða ristur í mold. Fyrst eru búnir til þrír ferhyrningar hver ofan á öðrum, þá tveir stærri ofan á þá hlið við hlið, sem marka eins konar hendur. Ofan á þeim er einn ferhyrningur sem háls og efst stór hringur fyrir haus. París af þessari gerð kalla flestir einfaldlega parís en margir þó konuparís. Karlaparís var eins að öðru leyti en því að tveir reitir mynduðu háls. Tröllaparís er öllu stærri en hinir tveir með tvenn pör af örmum og tvo hálsa.

Þegar parísinn er tilbúinn er hoppað á öðrum fæti eftir föstum reglum og steini kastað í reitina, einnig eftir sérstökum reglum.

En margar aðrar gerðir voru til af parís. Þar mætti nefna snúðaparís og vínarbrauðaparís. Ef fara átti í snúðaparís var byrjað á að draga upp mynd af snúði. Í hann voru síðan afmörkuð göt sem hoppað var í. Vínarbrauðaparís var hins vegar aflangur með gluggum og virðist hafa verið mjög líkur svokölluðum gluggaparís sem er yngri. Í gluggaparís eru alls hafðir sex gluggar og steini er ýtt með fætinum í hvern glugga allan hringinn. Má hvorki steinn né fótur lenda á striki.

Þá má nefna tröppuparís. Þar eru notaðar lágar tröppur og auk þeirra góður steinn. Byrjað er á að sparka steininum úr neðstu tröppunni, þá úr næstneðstu og svo koll af kolli, þar til búið er að hoppa í allar tröppurnar. Í kringluparís er byrjað á að draga upp hring sem skipt er í átta göt. Síðan er notuð steinplata og henni sparkað úr fyrsta gati í næsta og þannig allan hringinn og út úr honum aftur. Sjálfsagt eru til einhver fleiri afbrigði af parís.