peningalykt

Orðið peningalykt kemur fyrst fram í orðabók árið 1963, í Viðbæti við orðabók Sigfúsar Blöndals. Þar er það þýtt með danska orðinu ‘pengelugt’, en það orð er nú reyndar ekki að finna í tiltækum dönskum orðabókum. Sama ár og Viðbætir kom út, birtist fyrsta útgáfa af Íslenzkri orðabók handa skólum og almenningi, lengst af kölluð Orðabók Menningarsjóðs. Þar er orðið peningalykt skýrt svo: ‘ „lykt” af peningum: finna p[eningalykt] gruna, þykjast sjá, að græða megi peninga’. Í annarri útgáfu sama verks, aukinni og endurbættri 1983, er sömu merkingu að finna, en auk þess er eftirfarandi merkingarbrigði bætt við: ‘lýsisbræðslulykt.’ Í Íslenskri orðabók, þriðju útgáfu, aukinni og endurbættri 2002 er peningalykt skýrð svo: ‘1 óforml[egt] ávinningur af fjárvinningi, gróða > finna peningalykt gruna, þykjast sjá að græða megi peninga 2 slangur lykt af reyk frá fiskimjölsbræðslu’.

Í ritmálsskrá og textasafni Orðabókar Háskólans er nokkur dæmi að finna um hina fyrri merkingu orðsins, þ.e. ‘gróðavonar’-merkinguna:

 • Braskarar eru fljótir að finna hvar peningalykt er. Hernámsár.
 • Og peningalykt fann hann í hundrað og einnar mílu fjarlægð. Satan.
 • Um leið og komið er ... til suðurhlutans, liggur peningalyktin yfir öllu, háir hælar og merkjavörur útum allt. Blogg.

Hin síðari merking, ‘lýsisbræðslulykt’, eða öllu heldur ‘lykt af reyk frá fiskimjölsbræðslu’ er hins vegar algengari eða var til skamms tíma, þegar mengunarvörnum var áfátt og reyk frá síldarbræðslum og fiskimjölsverksmiðjum lagði eftir veðri og vindum yfir umhverfið. En starfsemi verksmiðjanna merkti að síld og annar fiskur veiddist og veitti sú starfsemi þannig almenna atvinnu á tímum, þegar atvinnuleysi var landlægt og árstíðabundið. Lyktin úr bræðslunum var því frekar fagnaðarefni og ‘flottræfilsháttur’ að amast við henni. Elsta dæmi Orðabókar Háskólans er úr minningabók Hendriks Ottóssonar frá fyrri hluta síðustu aldar:

 • Vísir og Morgunblaðið segja að það sé ekkert við stækjuna úr fiskimjölsverksmiðjunni að athuga, því það sé bara peningalykt. HOttHlíð., 60.
 • Þeirrar skoðunar hefur nokkuð orðið vart hér, að það væri flottræfilsháttur að vera að amast við peningalyktinni. Sveitstjm. 1971, 116.
 • Hann svipast um á bryggjunni, andar að sér peningalyktinni, hefur skynjað sál staðarins í einni andrá, brosir. Síld.
 • Í nóvember 1936 lá auðvitað engin peningalykt yfir bænum því ekki var brætt nema á sumrin. Síld.

Heimildir:

 • Blogg: Almennt blogg á vefnum 2001-06.
 • Hernámsár: Hernámsárin. Svör við spurningalistum Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns.
 • HOttHlíð.: Frá Hlíðarhúsum til Bjarmalands. Höf.: Hendrik Ottósson. Akureyri 1948.
 • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Ritstjóri: Árni Böðvarsson. Önnur útgáfa, aukin og bætt. Rvík 1983.
 • Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Ritstjóri: Mörður Árnason. Rvík 2002.
 • Íslenzk orðabók handa skólum og almenningi. Ritstjóri: Árni Böðvarsson. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1963.
 • Satan: Söngvar Satans. Höf.: Salman Rushdie. Þýð.: Sverrir Hólmarsson og Árni Óskarsson. Reykjavík: Mál og menning 1989.
 • Sigfús Blöndal. Íslensk-dönsk orðabók. Viðbætir. Ritstjórar Halldór Halldórsson og Jakob Benediktsson. Samverkamenn Árni Böðvarsson og Erik Sönderholm. Íslenzk-danskur orðabókarsjóður 1963.
 • Síld.: Svartur sjór af síld. Síldarævintýrin miklu á sjó og landi. Höf.: Birgir Sigurðsson. Reykjavík: Forlagið 1989.
 • Sveitstjm.: Sveitarstjórnarmál. Tímarit um málefni íslenskra sveitarfélaga. 1971, 116.

Gunnlaugur Ingólfsson
apríl 2008

Fleiri orðapistlar