pennaljómi

Pennaljómi er eitt þeirra fjölmörgu orða sem finna má í talmálssafni Orðabókarinnar. Í talmálssafninu eru orð sem hafa ekki alltaf ratað á prent þó þau séu sum hver algeng í töluðu máli. Orðin eru einkum komin frá heimildarmönnum Orðabókarinnar í gegnum þættina Íslenskt mál, sem verið hafa á dagskrá Rásar 1 síðan 1956.

Pennaljómi er notað um ritfæran mann, mann sem er góður penni. Heimildarmaður sagði Kjarval hafa áritað ljóðabók sína Ljóðagrjót (1956) til Jónasar frá Hriflu og ávarpað hann með þessum orðum: Pennaljómi Herra Jónas Jónsson. Vísar hann þá til ritfærni Jónasar.

Pennaljómi lýsir vel þeim sem er þeirri gáfu gæddur að skrifa góða og fallega texta, líkt og kvennaljómi er notað um þann sem nýtur mikillar hylli hjá kvenþjóðinni, er kvennagull.

Annar heimildarmaður sagði pennaljóma vera notað um þann er hafði fallega skrift, orðið var þá dregið af skriftinni en færðist yfir á manninn eða ritarann.

Hvort sem pennaljómi er haft um ritfæran mann eða þann sem hefur fallega rithönd, er orðið fín viðbót við orðaforða okkar og mætti heyrast oftar.

Heimildir
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans

Ólöf Margrét Snorradóttir
september 2003