pils

Merking og uppruni
Fáir velkjast í vafa um merkingu hvorugkynsorðsins pils. Samkvæmt Íslenskri orðabók Eddu (2002:1130) er pils 'kvenflík, neðri hluti kjóls eða flík sem svarar til hans'.

Í fornu máli var pils notað um einhvers konar ullarskyrtu. Sama merking var í smækkunarorðinu pilsungur. Í nútímamáli merkir pilsungur aftur á móti 'stutt pils'. Í fornmálsorðabók Johans Fritzners (1954:937) er pils einnig sagt merkja 'stakkur':
  • Ánn var svá búinn hversdagsliga, at hann var í hvítu pilzi; þat var svá sítt, at þat nam hæl; þá var hann í grám pilzungi, hann tók ofan á miðjan kálfann.
Pils er notað í nýnorsku í merkingunni 'undirkjóll, nærpils' og í miðlágþýsku eru til myndirnar pels og pils í merkingunni 'loðfeldur'. Orðin eru sótt til latínu pellis 'feldur' og er þannig tökuorðið pels 'loðfeldur' skylt pils.

Pils í orðatiltækjum og samsettum orðum
Pils er nokkuð algengt í orðatiltækjum. Talað er um að kona sé kerling í pilsinu sínu ef hún er ákveðin. Sumir tala um að kona sé í pilsinu sínu ef hún stendur vel fyrir sínu. Að fara ekki í pils einhverrar konu er notað þegar kona þykir röggsöm og dugleg. Talað er um að það blási í pilsin á konu ef mikill gustur er á henni. Þá er talað um að kona sé laus í pilsi ef hún þykir léttúðug og laus í rásinni. Sá sem er einhverri konu mjög háður er sagður hanga í pilsunum hennar.

Pils er stundum notað í niðrandi orðum um karlmenn og konur. T.d. er pilsaveiðari sá sem er upp á kvenhöndina, pilsaglenna er léttúðug kona og sama á við pilsagálu og pilsaskeglu en pilsvargur er kvenskass.