piparsveinn og piparmey

Því er oft haldið fram, og það með réttu, að munur sé á blæ orðanna piparsveinn og piparmey.

Heimildir um piparsveininn eru mun eldri og að minnsta kosti frá 16. öld. Orðið er fengið að láni úr dönsku, pebersvend, og var þar notað um ógifta farandsala sem versluðu með ýmsan smávarning, einkum pipar. Þeir voru aufúsugestir og áttu oft vinkonur í mörgum sveitum. Hérlendis fer orðið að eiga við ógifta karlmenn, sem voru í lausamennsku, andstætt húsmanni sem var heimilsfastur á bæ. Ekkert niðrandi var við orðið piparsveinn í upprunalegu merkingunni og enn er það hlutlaust eða fremur sagt í jákvæðu gamni um ungan og eftirsóttan, ókvæntan karlmann þótt einnig megi heyra það notað um eldri mann.

Orðið piparmey er einnig fengið að láni úr dönsku, pebermø, og lagað eftir orðinu piparsveinn, en það er miklu yngra í málinu. Sennilega er það ekki eldra en frá síðari hluta 19. aldar. Piparmey hefur jafnan verið notað í niðrandi merkingu um eldri, ógifta konu. Sama er að segja um piparjómfrú sem er álíka gamalt og einnig úr dönsku, peberjomfru.

Piparkerling og piparkarl eru yngst og sennilega frá því í byrjun 20. aldar. Þau eru bæði notuð í niðrandi merkingu, þó ekki jafn sterkri um karlinn. Sem sagt: það er í lagi að vera piparsveinn, og jafnvel dálítið kitlandi, en mun síðra er að vera piparmey.

Heimildir
  • Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans
  • Ordbog over det danske sprog XVI, dálkar 614-616.