pokafiskur

Eins og flestir vita er óheimilt að drepa æðarfugl. Stundum kemur þó fyrir að fuglinn festist í neti og drepst. Áður fyrr þótti ekki rétt að henda ætum bita og var fuglinn því oft settur í poka og farið laumulega með hann í land. Fuglinn fékk af þessu ýmis nöfn. Eitt þeirra er pokafiskur. Um það orð eru aðeins tvær heimildir í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, báðar frá 19. öld. Önnur þeirra var úr blaðinu Þjóðviljanum frá 1889:

auk þess mun talsvert af pokafiski hafa verið vegið inn í ljósaskiptunum.

Það eina sem ráða má af þessu dæmi er að fara varð leynt með það sem vega átti. Svo virðist sem orðið pokafiskur hafi aðallega verið notað fyrir vestan en mun algengara orð yfir æðarfugl í poka var pokaönd. Heimildir úr ritmáli voru elstar frá 19. öld. Í Andvara frá 1904 stendur t.d.:

að menn stundum hittist koma af veiðum þessum klyfjaðir af pokaöndum, en nafn draga þær af því, að veiðimennirnir varðveita þær í pokum fyrir dagsbirtunni.

Heimildarmenn Orðabókarinnar sögðust flestir aðeins þekkja framburðinn pokönd og voru þeir úr öllum landshlutum. Tveir þeirra sögðu að sýslumaður hefði oftast fengið eina pokaönd ef fleiri höfðu komið í net eða verið ,,óvart“ skotnar.

Ýmis fleiri nöfn eru höfð um æðarfuglinn án þess að poki komi þar við sögu. Eitt þeirra er prestalóa sem þekkist á Austfjörðum, annað sjóhrafn sem þekkist á Vesturlandi og enn eitt er strandmávur sem þekkist á Vestfjörðum.