ramakvein

Merking og notkun
Orðasambandið að reka upp ramakvein 'að kvarta eða mótmæla hástöfum' er alþekkt og kemur víða fyrir. Nafnorðið ramakvein 'hátt kvein, harmakvein' er fyrst og fremst bundið við þetta samband þótt því bregði einnig fyrir í öðru samhengi í svipaðri merkingu. Dæmi má finna í söfnum Orðabókarinnar og fleiri heimildum.

 • Ef einhver tekur slíka ádrepu til sín og rekur upp ramakvein þá kemur hann annað hvort upp um slæma samvisku eða ótta. (Textasafn OH)
 • Fyrir nokkrum árum ráku ýmsir upp ramakvein yfir kostnaði við endurnýjun á aðalhurð Alþingishússins. (Mbl. 23. febrúar 2004)
 • Stúdentsefni ráku skiljanlega upp ramakvein. (Mbl. 20. nóvember 2004)
 • Söngurinn er skelfilegur og skínandi í senn; ólýsanlegt þegar lafði Macbeth yfirgnæfir her manns á sviðinu og ramakvein hljóðfæranna í gryfjunni. (Mbl. 23. mars 1993)
 • Hljóðin inni á lager breyttust í ramakvein. (Textasafn OH)


Aldur og uppruni
Dæmi um orðið ramakvein í ritmálssafni Orðabókar Hákólans eru öll tiltölulega ung. Eldri dæmi eru til um orðin ramahljóð og ramaóp í svipaðri merkingu en þau eru heldur ekki ýkja gömul, þ.e.a.s. frá 19. öld.

En hvað er þetta rama-? Það er dregið af nafninu Rama, sem var bær í Júdeu, og felur í sér líkingu sem sótt er til Biblíunnar:

,,Svo segir Drottinn: Rödd heyrist í Rama, harmakvein, beiskur grátur: Rakel grætur börnin sín. Hún vill ekki huggast láta vegna barna sinna, því að þau eru eigi framar lífs“ (Jeremía 31:15).


Uppruninn endurspeglast í því að í sumum eldri dæmunum í ritmálssafni Orðabókarinnar er orðið skrifað með stórum staf sem sýnir að tengingin við Rama hefur verið höfundunum ljós:

 • Ramahljóð heimsendanna á milli út af óáran og alls konar ólagi (Ritmálssafn OH; 1886)
 • Þau ráku upp eitt angistarinnar Ramakvein út af ósigrinum (Ritmálssafn OH; 1952)

Nú er orðið jafnan skrifað með litlum staf enda fremur ólíklegt að tengingin við Rama sé lifandi í huga málnotenda almennt og fremur er litið á þetta sem e.k. áhersluforlið.

Hliðstætt orð er til í dönsku, ramaskrig 'æst eða hávær mótmæli', og er nokkuð algengt. Ungur aldur íslenska orðsins gæti bent til þess að það sé sniðið eftir danska orðinu fremur en að það sé sprottið beint af biblíutextanum.

Heimildir

 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
 • Gagnasafn Morgunblaðsins.
 • Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans 1989.
 • Íslensk orðabók. 3. útg. Ritstjóri: Mörður Árnason. Edda 2002.
 • Vefsíða Hins íslenska biblíufélags.
 • Nudansk ordbog. 12. útg. Ritstjórar: Chr. Becker-Christensen o.fl. Politiken 1984.

 

apríl 2005