rambelta

Kvenkynsorðið rambelta er annað heiti á leiktækinu vegasalti og sögnin rambelta merkir ‘að vega salt’. Orðin er ekki að finna í ritmálssafni Orðabókarinnar en í talmálssafni eru nokkrir seðlar um þau, flestir frá árunum 1979 og 1980. Samkvæmt seðlunum virðist þetta orðafar aðallega hafa verið viðhaft í Hafnarfirði og telja sumir heimildarmenn það vera sérhafnfirskt. Á seðli frá 1979 segir svo:

... hafnfirska orðið rambelta ... Það hef ég hvergi annars staðar heyrt og til skamms tíma skildu hafnfirskir krakkar varla hvað var „að vega salt“. Hér var rambeltað (eða til hægðarauka „rambað“) á rambeltunni ....

Í mars 2004 staðfestu hafnfirskir heimildarmenn sem eiga börn á leikskólaaldri að vegasaltið sé enn kallað rambelta eða ramba þar í bæ.

Af talmálssafninu má ráða að orðin hafi þekkst víðar fyrr á 20. öldinni. Einn heimildarmaður segist þekkja nafnorðið rambelta úr Mýrdal um vegasalt og Halldór Halldórsson prófessor segir það notað í Skerjafirði um eins konar rólu, „þar sem tvö börn sitja hvert á móti öðru“. Þá kemur fram að sögnin rambelta hafi verið notuð í Reykjavík um aldamótin 1900, á öðrum seðli segist heimildarmaður þekkja orðið úr Eyjafirði, og loks er þar seðill með dæmi frá Vestmannaeyjum:

Ef við krakkarnir vorum kannski úti að rambelta eða höfðum bara verið úti um hvippinn og hvappinn, þá var gott að koma heim í hosiló og fá vöplur hjá ömmu.

Í talmálssafni koma ennfremur fram nafnorðin rambald (hk.) í merkingunni ‘e-ð óstöðugt, e-ð sem vegur salt, hrófatildur; príl í krökkum’ (t.d. í orðasambandinu „hafa eitthvað á ramböldum“ um eitthvað sem vegur salt) og rambaldi um ‘e-ð valt eða óstöðugt’ eða ‘vegasalt’. Þá er þar tilgreindur rithátturinn rambelda, bæði á nafnorði og sögn, og sagnmyndirnar rambalda og rambaldast í merkingunni ‘að vega salt og vera við það að detta’.

Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók eru þessi orð öll af sama toga og skyld sögninni ramba sem merkir ‘kjaga, vaga, reika; rugga til; reigjast’ og nafnorðinu ramb ‘kjag, vag; rugg; reigingur’. Í ritmálssafni Orðabókarinnar koma orðin rambald (hk.) og rambaldi (kk.) fram í merkingunum ‘ás sem kirkjuklukka leikur á’ og ‘ás í áttavita’, sjá einnig Íslenska orðabók (2003).

Heimildir
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
  • Guðrún Kvaran. 1982. Orð af orði. rambelta. Íslenskt mál 4:278--280.
  • Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa. 2002. Edda hf, Reykjavík.
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans.