ranimosk

Merking og notkun
Hvorugkynsnafnorðið ranimosk er skrítið og skemmtilegt orð sem ekki stendur í neinum beinum tengslum við önnur kunnugleg orð málsins. Kannski er það einmitt þess vegna sem því bregður víða fyrir, t.d. sem nafni á verslun, heiti á lagi á einni af plötum Þursaflokksins og sem notendaheiti á bloggsíðu. Aftur á móti kemur það óvíða fyrir í textasamhengi, t.d. fundust engin dæmi í gagnasafni Morgunblaðsins en fáein í söfnum Orðabókarinnar og eitt við leit á netinu.
 • Ranimoskið í þessum furðuheimi smiðjunnar verður þeim mun hnýsilegra sem við vitum minni deili á því. (Ritmálssafn OH; úr Undir kalstjörnu eftir Sigurð A. Magnússon)
 • Við hnutum um spýtur og annað ranimosk á gólfinu (Textasafn OH)
 • Þessir kapaldrifnu sporvagnar eru frægir enda hefur svona búnaður hefur verið í notkun í SF frá því árið 1873. Þetta ranimosk toga þeir upp og niður hinar snarbröttu brekkur SF. (Heimasíða á netinu)
Orðinu bregður reyndar fyrir í fleiri myndum, t.d ranímosk, ranamosk og jafnvel rennimosk. Slík tilbrigði eru algeng í orðum sem ekki hafa stuðning af öðrum skyldum orðum, ekki síst ef þau eru einkum notuð í töluðu máli eins og reyndin virðist vera um þetta orð:
 • Í loftinu var umhorfs einsog venja er til á skammbitum: rusl og ranímorsk hafði safnast fyrir í tuttugu og fimm ár. (Ritmálssafn OH; úr Sjöstafakverinu eftir Halldór Kiljan Laxness)
 • Auk þess sá hún að ýmiskonar drasl og ranamosk hafði verið hreinsað úr varpanum. (Ritmálssafn OH; úr Vorköld jörð eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson)
En hvað skyldi þá þetta undarlega orð þýða? Dæmin gefa svolitla vísbendingu um það en skýringin í Íslenskri orðabók hljómar svo: 'skran, samansafn af lítilsverðum hlutum; ryk á eða í skotum, mosarusl'.

Dæmi úr ritmáli ásamt umsögnum um orðið sem talmálssafn Orðabókarinnar geymir benda til þess að ranimosk sé notað á svipaðan hátt og orðin dót eða drasl í ákveðnu samhengi, t.d. þegar sagt er Óttalegt ranimosk er þetta! um það sem þykir ómerkilegt eða lítilsvert (sbr. Óttalegt dót/drasl er þetta!). Jafnvel eru heimildir um að orðið hafi verið haft um fólk í neikvæðri merkingu (sbr. pakk).

Enn er ótalið eitt dæmi þar sem orðið er notað sem heiti á síðari tímum. Dieter Roth kallaði eitt verka sinna Ranimosk. Það er s.k. innsetning sem er lýst þannig: ,,Pappi, steinn, gips, pappír, rafgeymir og smáhlutir í umslagi. Alltsaman í kassa sem áletraður er RANIMOSK og Dieter of the year.“ (Opin menning). Rímar lýsingin prýðilega við merkingarskýringuna hér að ofan.

Aldur, útbreiðsla og uppruni
Ekki er hægt að fullyrða neitt um uppruna orðsins ranimosk en í Íslenskri orðsifjabók er síðari hlutinn tengdur við orðið mosk 'ryk, kusk; mosarusl'.

Tiltæk dæmi eru öll frá 20. öld og aðrar heimildir um orðið eru líka ungar. Það finnst ekki í eldri orðabókum en íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals frá því um 1920. Þar er bæði myndin ranimosk og ranamosk og orðið er merkt sem talmálsorð og tengt Suðurlandi. Flest dæmi og umsagnir í söfnum Orðabókarinnar eru líka sunnlensk, einkum af svæðinu frá Rangárvallasýslu vestur í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og gildir það jafnt um talmál og ritmál. Eigi að síður eru þar líka fáein dæmi af Norður- og Austurlandi þannig að orðið einskorðast greinilega ekki við fyrrnefnda svæðið þótt það kunni að vera algengast þar.

Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
 • Talmálssafn Orðabókar Háskólans.
 • Textasafn Orðabókar Háskólans.
 • Sigfús Blöndal. Íslensk-dönsk orðabók. Íslensk-danskur orðabókarsjóður 1920–24.
 • Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans 1989.
 • Íslensk orðabók. 3. útg. Ritstjóri: Mörður Árnason. Edda 2002.