rass

Ófá eru þau orðatiltæki sem orðið rass kemur fyrir í og væri ærið verkefni að gera grein fyrir því máli öllu og verður ekki gert hér. En eitt af þeim orðasamböndum sem sem stundum koma fyrir í ræðu og riti er orðatiltækið seint í rassinn gripið, í þeirri merkingu að of seint sé að gera eitthvað sem auðvelt hefði verið fyrir nokkru, tækifæri hafi gengið manni úr greipum.

Orðabók Háskólans (OH) hefur dæmi um orðalag þetta úr mæltu máli frá miðri síðustu öld en bókfest dæmi eru yngri eða frá síðasta fjórðungi aldarinnar. Einn heimildarmaður OH nefnir í bréfi frá 1977 að tiltekinn fréttamaður hafi notað þetta „um daginn“ í sjónvarpinu. Þessi heimildarmaður segist fremur nota hér orðalagið að grípa í rassinn á tímanum. Um þetta orðalag, og nokkur afbrigði þess, eru miklu eldri heimildir. Í málsháttasafni frá 17. öld kemur fyrir myndin grípa í rassinn á deginum: Hann greip í rassinn á deginum, þ.e. varð of seinn fyrir, missti af tækifærinu. Við gripum í rass á góðum degi, segir í skáldsögu frá miðri síðustu öld um tvo ferðamenn sem höfðu ófyrirsynju orðið seint fyrir yfir fjallveg og misst af bátsferð yfir fjörð. Annars er þetta einkum haft um að eyða dýrmætum tíma og hefjast handa of seint við verk svo að lítið verður úr. Einnig er til afbrigðið, að grípa í rassinn á tíðinni, í sömu merkingu, `verða of seinn fyrir og missa af góðu tækifæri', svo og að grípa í rassinn á tímanum eins og nefnt var hér á undan.

Í orðatiltækjunum er orðið rass í merkingunni `endi, endir, lok' og vísar til tíma frekar en áþreifanlegs hlutar. Mætti hugsa sér að afbrigðið seint í rassinn gripið sé runnið frá hinum eldri afbrigðum, grípa í rassinn á deginum/tíðinni/tímanum, þannig að merkingarþátturinn [seint] í hinum eldri afbrigðum verði að orðinu seint í hinu yngra.

Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Halldór Halldórsson. Íslenzkt orðtakasafn. 3. útgáfa aukin og endurskoðuð. Reykjavík MXMI.
  • Jón G. Friðjónsson. Mergur málsins. Reykjavík 1993.
  • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Önnur útgáfa, aukin og bætt. Ritstjóri Árni Böðvarsson. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1983.
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans (seðlasafn).