rekagátt

Orðið rekagátt kemur fyrir í heimildum allt frá 17. öld og fram um miðja 20. Það hefur verið tekið upp í orðabók Sigfúsar Blöndals og væntanlega þaðan komið í Íslenska orðabók, allt frá fyrstu útgáfu til hinnar þriðju. Í 2. útgáfu orðabókarinnar frá 1983 er rekagátt skýrt, (1) rekistefna, (2) slettireka, afskiptasöm manneskja, (3) gestanauð, erill.

Orðið kemur fyrst fyrir í bréfi Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 6. mars 1670 þar sem hann veigrar sér við að taka fram fyrir hendurnar á sóknarmönnum í Ingjaldshóls- og Fróðársóknum um prestskjör. Telur biskup í nokkrum liðum öll tormerki á því að slíkt leiði til nokkurrar lausnar, „helst þess vegna að eg veit fyrir víst og sé í hendi að hér muni ekki úr verða nema strit og stím, æðsli og órói“ (Bréfabækur 258). Nefnir biskup m.a. í einni grein, „ef sú rekagátt skyldi á verða, þá mætti ske að margar manneskjur í reiðileysi burtsofnuðu“ (s.st.). Eftir samhenginu að dæma á biskup hér við afskipti sín af málinu, ‘afskiptasemi’. Merkingin ‘rekistefna’ kemur einnig fyrir, t.d. í dæmum eins og þessum:

  • það gæti að vísu valdið nokkurri fyrirhöfn og rekagátt ef margir ábúendur krefðust breytingar (OH)
  • mér finnst ekki taka því að vera að gera neina rekagátt út úr þessu og öðru eins (OH)
  • helgidagsbrot sem leiddi af sér mikla kirkjulega rekagátt (OH)

Í talmálssafni Orðabókar Háskólans eru nokkur dæmi um orðið rekagátt en nánast öll af Suðurlandi. Að vera með rekagátt er að skipta sér um of af verki eða málefni sem manni kemur ekki meir en svo við. Þá er hægt að svara sem svo: Hvaða rekagátt er þetta? Hún er nú meiri rekagáttin er stundum sagt um manneskju sem er með rekagátt.

Merkingin ‘gestanauð, erill’ er fengin úr Viðauka Blöndals (Tillæg og Rettelser) en ekki er þar vísað til neinnar heimildar um þá notkun.

En hvernig er þetta orð, rekagátt, myndað? Hver er uppruni þess? Ásgeir Blöndal Magnússon tekur það upp í orðsifjabók sína (þar sem annars er farið sparlega með samsett orð). Hann telur að fyrri liður, reka-, sé orðið reki í merkingunni ‘strönd, fjara, þar sem við rekur á land’. Seinni liðurinn, -gátt, sé e.t.v. í eldri og upprunalegri merkingu (en dyrarifa), þ.e. ‘gangur, umgangur’ en orðið gátt er af sama stofni og so. ganga. Orðið getur því verið all-fornt og síðari tíma merkingar eins konar líkingar, dregnar af manni sem gengur á reka í umboði landeiganda eða handhafa ítaks og skiptir sér af allri umferð um fjöruna, gætir þess að ekkert sé tekið í óleyfi.

Heimildir

  • Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans 1989.
  • Bréfabækur: Úr bréfabókum Brynjólfs biskups Sveinssonar. Safn Fræðafélagsins. XII. Bindi. Kaupmannahöfn 1942.
  • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. 2. útgáfa. Ritstjóri: Árni Böðvarsson. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík 1983.
  • OH: Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Sigfús Blöndal. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík 1920–1924.
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans.

Gunnlaugur Ingólfsson
febrúar 2010

Fleiri orðapistlar