renigantur

Í talmálssafni Orðabókar Háskólans eru nokkur dæmi um orðið renigantur. Þau eru flest frá því á síðari hluta sjöunda áratugar síðustu aldar en stöku dæmi hafa borist fram undir 1990. Dæmi um orðið eru einkum af Suður-, Suðvestur- og Vesturlandi, frá Vestur-Skaftafellssýslu vestur í Borgarfjörð. Merking orðsins samkvæmt umsögn heimildarmanna er einkum ‘stór og digur nagli, gaur’. Sumir tala nánast um flein, sem stendur illa, t.d. í tré, oft frekar til óþurftar og hætt við að rífi út frá sér. „Það er ekki von að hann rekist, þetta er bölvaður renigantur og sennilega afturréttingur í þokkabót“ er haft eftir heimildarmanni úr Gullbringusýslu. Enn fremur kemur fram í máli heimildarmanna af sömu slóðum, sunnan- og vestanlands, að renigantur hafi einnig verið notað um menn, einkum grófgerða, stóra og óliðlega í vexti.

Orðið ber með sér að vera tökuorð en óvíst hvaðan það er komið. Ásgeir Blöndal Magnússon hallast að því í orðsifjabók sinni, undir orðinu renigantur, að hér muni vera á ferðinni danska orðið renegat (renegard) sem í því máli táknar ‘trúskiptingur’ og kemur af latneska orðinu renegatus sem er lýsingarorð, -háttur af sagnorðinu renegare ‘neita, afneita, þráneita’, þ.e. sá sem afneitar trú sinni. Ásgeir telur merkinguna í íslensku tilkomna fyrir misskilning eða að einhver óskráð (horfin?) merking í danska orðinu hafi stuðlað að merkingarferli orðsins í íslensku. Að því er seinna n-ið í renigantur varðar kynnu að finnast fleiri dæmi um slíkt í tökuorðum í íslensku en ekki verður vikið að því frekar að sinni.

Heimildir

  • Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989: Orðabók Háskólans.
  • Orðabók Háskólans. Ritmálssafn; talmálssafn.

Gunnlaugur Ingólfsson
desember 2010