reyfarakaup

Orðið reyfarakaup eru nú einkum notað í fleirtölu, t.d. í orðasambandinu að gera reyfarakaup í merkingunni 'að gera mjög góð kaup, kaupa á mjög hagstæðu verði'. Í eldra máli eru þó einnig dæmi um að orðið sé haft í eintölu í sömu merkingu.
  • Það er einmitt skynsöm og lagleg verzlunarkeppni ... sem á að gjöra oss kost á góðum og ábatasömum verzlunarkjörum, en ekki hin svo nefndu ,,reifara``-kaup , eða nein einstök neyðarsala eins einstaks manns á einstökum farmi. (Ritmálssafn OH)
  • Hlutabréf Gránufélagsins, sem að ákvæðisverði gildir 50 kr. og er með áföstum 6% rentuseðlum til þriggja ára, er til sölu fyrir 10 kr. Þeir, sem vilja sinna þessu reyfarakaupi, geta samið við ritstjóra þessa blaðs. (Fjallkonan 1886:20)
  • og er auðheyrt, að þeim finnst það reyfarakaup . (Ritmálssafn OH)
  • Elías segir að neytendur geti einnig gert reyfarakaup í Bayonne-skinku núna sem seld sé með 42% afslætti á meðan birgðir endast. (Mbl 14.12.2002)

Orðið er skylt ósamsetta orðinu reyfari, sem í eldra máli þýddi 'ræningi, ránsmaður' þótt nú sé það nær eingöngu notað um ákveðna bókmenntategund, þ.e.a.s. skemmtisögur, ekki síst sakamálasögur. Orðið reyfari 'ræningi' er talið vera tökuorð úr miðlágþýsku og kemur fyrir þegar í fornu máli. Elstu dæmi Orðabókarinnar um orðið reyfarakaup eru aftur á móti frá miðri 19. öld og líklegra er að það sé sniðið eftir danska orðinu røverkøb (með sömu merkingu) fremur en að það sé leitt beint af reyfari 'ræningi'.

Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon. Reykjavík: Orðabók Háskólans 1989.
  • Íslensk orðabók. Reykjavík: Edda 2002.
  • Politikens Nudansk Ordbog med etymologi. (1. útg. ; tölvuútgáfa) Kaupmannahöfn: Politikens Forlag A/S 1999.