reyfari

Merking og notkun
Orðið reyfari hefur tvær merkingar samkvæmt Íslenskri orðabók:
 1. (gamalt) • ræningi, ránsmaður
 2. (bókmenntir) • skáldsaga samin fyrst og fremst til afþreyingar án tillits til listræns gildis, oft í stöðluðu formi (flestir um ástir, bardaga, spennuleiðangra eða sakamál)
Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans má finna fjölmörg dæmi um fyrri merkinguna, flest gömul eins og vænta má, en henni bregður líka fyrir í yngri ritum:
 • skrifaði hann bréf þaðan til Noregs og taldi óvíst, hvort hann héldi heim til Íslands það sumar [ [...]] með því að á þessum slóðum sé ógrynni ,, reyfara og skálka``. (16. öld; Ritmálssafn OH)
 • *Reifarar liggia fyrir nordan skóg. (17. öld; Ritmálssafn OH)
 • Heldurðu ekki, að þessir reyfarar og fjárdrápsmenn hafi þurft að gera svo vel og lamma sig inn í sjálft guðshús. (úr Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar; Ritmálssafn OH)
 • Ég vil endilega hafa þig með því mér finnst svo mikið öryggi að hafa svo stóran og sterkan mann með þegar stórræði eru á ferðinni. Ekki verður það síðra þegar ... við förum upp í bæ í gleðina, því alls staðar geta hættur leynst af misindismönnum og reyfurum. ( Mbl 1.6.2003 )
Elsta dæmið sem varðveitt er í ritmálssafni Orðabókarinnar um síðari merkinguna er frá því í lok 19. aldar en um hana eru fjölmörg dæmi í nútímamáli:
 • Rétt fyrir stundu lauk ég við seinasta kaflann í ,,reyfaranum``. (Ritmálssafn OH)
 • að heyra samlanda sinn herraðan í ávarpi, sem einsog kunnugt er þekkist ekki nema í útlendum reyfurum. (Ritmálssafn OH)
 • Á SUMRIN grilla menn eitthvað fljótlegt, lesa reyfara og hlusta á formúlupopp - eða er það tilfellið? (Mbl 22.7.2003)
 • Bilið á milli reyfara og fagurbókmennta hefur reyndar orðið æ óljósara með árunum og vegur hins bókmenntalega reyfara vaxið mjög. (Mbl 5.9.2003)
Uppruni og aldur
Orðið reyfari 'ræningi' er talið vera tökuorð úr miðlágþýsku. Það kemur fyrir þegar í fornu máli og í ritmálssafni Orðabókarinnar eru dæmi um eldri merkinguna allt frá elsta tímabilinu sem það nær til (16. öld).

Hin merkingin, 'afþreyingarsaga, spennu- eða sakamálasaga', er miklu síðar tilkomin. Elsta dæmi Orðabókarinnar um hana eru frá lokum 19. aldar (í grein eftir Einar Benediktsson frá 1896) en flest eru frá 20. öld og fjölgar eftir því sem á líður. Nú er síðari merkingin mun algengari og t.d. var bara eitt dæmi um merkinguna 'ræningi' meðal rúmlega 30 dæma um orðið í gagnasafni Morgunblaðsins frá síðastliðinu ári.

Síðari merkingin er ekki talin leidd beint af eldri merkingunni heldur komin frá danska orðinu røverhistorie 'lygasaga, skröksaga' og í ritmálssafninu eru allmörg dæmi um samsetta orðið reyfarasaga í sömu merkingu, það elsta frá 1887. Einnig eru fáein dæmi um orðið reyfararóman frá lokum 19. aldar og byrjun þeirrar 20. Það á sér beina samsvörun í dönsku (røverhistorie 'saga af ræningjum; ævintýraskáldsaga með ótrúlegum söguþræði') og þar sem merkingin er náskyld algengustu nútímamerkingu orðsins reyfari er ekki ólíklegt að þarna sé forvera þess að finna og síðari liðurinn hafi einfaldlega fallið brott.

Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Gagnasafn Morgunblaðsins
 • Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon. Reykjavík: Orðabók Háskólans 1989.
 • Íslensk orðabók. Reykjavík: Edda 2002.
 • Dönsk-íslensk orðabók. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja 1992.
 • Ordbog over det danske sprog (ODS). Kaupmannahöfn 1919-54.
 • Politikens Nudansk Ordbog med etymologi. (1. útg. ; tölvuútgáfa) Kaupmannahöfn: Politikens Forlag A/S 1999 .