ringulreið

Mörg orð má hafa um það ástand þegar allt fer úr skorðum og ekki verður séð hvert stefnir og hvernig ræst geti úr. Meðal þeirra er orðið ringulreið. Form orðsins og yfirbragð er nokkuð sérkennilegt enda er það ekki af íslenskri rót heldur upphaflega sótt til þýsku. Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er það ummyndað úr þýsku orðunum ringelrei og ringelreihen sem hafa merkinguna ´hringdans´. Nánari grein er gerð fyrir þessum uppruna í Íslenzku orðtakasafni Halldórs Halldórssonar í lýsingu á orðtakinu fara á ringulreið. Þýska orðið Reihen er gamalt afbrigði orðsins Reigen sem táknar sérstakan hópdans en orðið Ringel vísar til hringlaga fyrirbæris af einhverju tagi.  Halldór nefnir að orðið ringulreið komi fyrst fram á 18. öld í orðabók Björns Halldórssonar, en eldri mynd orðsins, ringulrei, er kunn frá 16. öld, í sambandinu fara á ringulrei. Annars hefur íslenska orðið mótast af þeirri alþýðuskýringu að síðari liður þess sé orðið reið.

Eldri notkun orðsins, eins og hún kemur fram í dæmum í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, er mjög bundin sagnasamböndum í breytilegum myndum,t.d. sambandinu e-ð kemst / er komið á ringulreið:

  • Það sem Árni Magnússon hefir ekki náð í af handritum er nú annaðhvort með öllu tapað, eða komið á ríngulreið. Skírnir 1858, IX.
  • skiptareikníngur Íslands og Danmerkur komust alveg á ríngulreið. Ný félagsrit XXVII, 152.

Í samtímamáli hefur orðið ringulreið sjálfstæðari stöðu og á sér fjölmörg samheiti, eins og rakið er í Íslenskri samheitaorðabók, þar sem m.a. eru nefnd orðin glundroði, óreiða og ólestur.

Úr gögnum Íslensks orðanets má lesa hvaða orð standa  orðinu ringulreið nærri að hegðun og merkingu. Þá er miðað við hvernig háttað er samfylgd orða í orðapörum með samtengingunni og, í samböndum eins og óeirðir og ringulreið, óeirðir og lögleysa, lögleysa og ringulreið, og litið svo á að skyldleikinn sé  meiri eftir því sem orðin eiga sér fleiri sameiginleg orð sem hinn hluta orðaparsins. Í ljós kemur að orðið glundroði er skyldast að þessu leyti. Af 217 orðapörum með orðinu ringulreið og 196 með orðinu glundroði er hinn hluti orðaparsins sameiginlegur í 102 tilvikum (eins og t.d. gauragangur í orðapörunum ringulreið og gauragangur og glundroði og gauragangur). Miðað við þennan mælikvarða fylgja orðin stjórnleysi, upplausn, öngþveiti, óstjórn, vonleysi og agaleysi í kjölfarið.

Þótt hæpið sé að skipa orðum í beina skyldleikaröð á þessum grundvelli er um leiðbeinandi upplýsingar að ræða. Í orðanetinu sameina orðapörin í heild mikinn fjölda merkingarskyldra orða, þar af rösklega 200 orð sem tengjast orðinu ringulreið á þann hátt.

Heimildir

  • Ásgeir Blöndal Magnússon, 1989. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík, Orðabók Háskólans.
  • Deutsches Universalwörterbuch. 2003. 5. überarbeitete Auflage. Mannheim, Dudenverlag.
  • Halldór Halldórsson. 1991. Íslenzkt orðtakasafn..3. útgáfa aukin og endurskoðuð. Reykjavík, Almenna bókafélagið.
  • Íslensk samheitaorðabók. 2012. Svavar Sigmundsson, ritstjóri. 3. útgáfa. Reykjavík, Styrktarsjóður Þórbergs Þórðarsonar og Margrétar Jónsdóttur.
  • Íslenskt orðanet. www.ordanet.is
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.

Jón Hilmar Jónsson
mars 2013