rólegheit

Orðið rólegheit ‛kyrrð, ró, spekt’ er tökuorð úr dönsku rolighed sem aftur er leitt af lýsingarorðinu rolig ‛stilltur, kyrr, hægur’ með viðskeytinu -hed. Lýsingarorðið rólegur er gamalt í íslensku, kemur þegar fyrir í fornu máli, og elsta dæmi í söfnum Orðabókar Háskólans um rólegheit er frá síðari hluta 16. aldar í ritinu Summaria Yfer þad Gamla Testamentid sem Guðbrandur Þorláksson biskup þýddi:

Þar sem ad er Fridur Roligheit og allskyns nægd allra hluta.

Ýmis orðasambönd eru þekkt með orðinu rólegheit bæði í ritmáli og takmáli. Í ritmálssafni Orðabókarinnar eru dæmi um að koma til rólegheita og slá sér til rólegheita. Bæði eiga þau fyrirmyndir í dönsku komme til rolighed og slå sig til rolighed í merkingunni ‛hvílast, taka á sig náðir; róast’. Koma sér eða komast til rólegheita er hérlendis einnig notað um að öðlast fasta búsetu oft eftir hálfgert basl.

Spurst var fyrir um sambandið gera sig til rólegheita í þættinum Íslenskt mál fyrir allnokkru. Kom þá í ljós að hlustendur víða um land notuðu það um að búa sig undir að fara að hátta einkum á ferðalagi en einnig um að hvíla sig frá vinnu. Einnig kom fram að fornafnið er ýmist í þolfalli eða þágufalli, þ.e. gera sig eða gera sér til rólegheita. Enn algengara virðist að nota sambandið gefa sig eða gefa sér til rólegheita í sömu merkingu.

Flestar heimildir eru þó um sambandið að slá sig eða slá sér til rólegheita. Það er einkum notað um að taka sér hvíld frá störfum en einnig um að þiggja gistingu, fara ekki lengra þann daginn þótt það hafi upphaflega verið ætlunin. Sambandið hafa sig til rólegheita virðist ekki algengt en er notað um að taka sér lengri hvíld á ferðalagi.

      September 2012
      Guðrún Kvaran