rúgbrauð

Rúgbrauð er ákveðin tegund af dökku formbrauði en í óformlegu talmáli hefur orðið einnig verið notað í yfirfærðri merkingu um frambyggða sendiferðabíla sem minna á rúgbrauð í lögun.

Mynd af rúgbrauði (Volkswagen)

Í ritmálssafni Orðabókarinnar eru fjölmörg dæmi um orðið en flest þeirra sýna eiginlega merkingu þess sem ekki þarf að fjölyrða um. Nokkur dæmi eru einnig um afleiddu merkinguna og dæmi um hana má sömuleiðis finna í gagnasafni Morgunblaðsins.
 • lögðu þeir upp frá Kairó í tveimur Fólksvögnum, fimm manna bíl og ,,rúgbrauði``. (Alfræði AB 17, 109)
 • Rúgbrauð - hálf hlálegt heiti á bíl. (Bíllinn 6-1985, 28)
 • Í 53 ÁR hefur Volkswagen framleitt Transporter sendibíla og fólksflutningabíla sem Íslendingar kölluðu jafnan rúgbrauð vegna sérstæðs sköpunarlags bílsins framan af. (Mbl. 4.6.2003)
 • Tildrög slyssins voru þau að Volkswagen "rúgbrauð" sem var á undan hægði á sér og hugðist taka vinstri beygju. (Mbl. 14.8.2003)
 • Áður voru menn gjarnan að breyta notuðum sendibílum, til dæmis Volkswagen rúgbrauði og Ford Econoline, í húsbíla og smíðuðu þá gjarnan allar innréttingar sjálfir. (Mbl. 11.8.2004)
 • Strætóarnir hér eru um 35 ára illa merkt fólksvagen-rúgbrauð sem stoppa hvar sem er, hvenær sem er. (Bloggsíða á netinu)
Eins og dæmin sýna hefur viðurnefnið rúgbrauð einkum verið haft um eina tegund sendiferðabíla, þ.e.a.s. Volkswagen.

Elsta dæmið um orðið rúgbrauð í ritmálssafni Orðabókarinnar er frá því um miðja 18. öld og dæmi um að það sé notað um sendiferðabíla má finna frá því laust fyrir 1970. Þótt sú merking sé trúlega nokkuð eldri verður ekki sagt með vissu hvenær hún kom fyrst fram en innflutningur á bílum eins og þeim sem einkum hafa gengið undir nafninu rúgbrauð hófst 1954. Eftir því sem best er vitað kemst þessi merking orðsins fyrst í orðabækur með slangurorðabókinni 1982 og hennar er einnig getið í nýjustu útgáfu Íslenskrar orðabókar.

Ekki geta Íslendingar státað af því að hafa fundið upp á líkingunni sem yfirfærða merkingin byggist á. Orðið á sér fyrirmynd í dönsku þar sem rugbrød hefur verið notað frá 1952 og jafnvel lengur um frambyggða sendiferðabíla. Íslenska orðið er því svonefnd "tökuþýðing".

Heimildir
 • Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans.
 • Gagnasafn Morgunblaðsins.
 • Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál. Ritstjórar: Mörður Árnason o.fl. Svart á hvítu 1982.
 • Íslensk orðabók. 3. útg. Ritstjóri: Mörður Árnason. Edda 2002.
 • Vefsíða Heklu
 • Slangordbogen. Ritstjóri Kaj Bom. Politiken 1974.
 • Nudansk ordbog. 12. útg. Ritstjórar: Chr. Becker-Christensen o.fl. Politiken 1984.

Ásta Svavarsdóttir