rúst

Ein er þúst fyrir utan Prúst
öll í rústir fallin.
Ríður á kústi frjálst og fúst
feiti bústni kallinn.
Halldór Kiljan Laxness
(sbr. Sjömeistarasöguna, bls. 96)

Í Íslenskri orðabók handa skólum og almenningi (1983), er orðið rúst tilgreint í fjórum merkingum:
  1. hrunin bygging, leifar af föllnu mannvirki;
  2. stór þúfa eða lágur hóll í votlendi með sífrera;
  3. hlaðvarpi, þ. e. aflíðandi, halli, brekka út frá hlaðinu, blettinum fyrir framan bæjardyrnar;
  4. mylsna eða smælki af brauði.
Önnur merkingin, 'stór þúfa o. s. frv. ...' er merkt í orðabókinni sem fræðihugtak í jarðfræði og kemur þegar fram hjá Þorvaldi Thoroddsen og jafnvel Sveini Pálssyni á 18. öld. Yngri jarðfræðingar hafa tekið þetta eftir hinum eldri náttúrufræðingum og má t. d. sjá skýringu á fyrirbærinu undir þessu heiti í Jarðfræði Þorleifs Einarssonar (1968) á bls. 136. Orðið er hins vegar fengið úr mæltu máli og vísast dregið af því að álengdar virðist því líkast sem um leifar bæjar- eða peningshúsa sé að ræða.

Þriðja merkingin í orðinu rúst er í orðabókinni merkt sem staðbundin, þ. e. hún þekkist einungis á tilteknum hluta landsins, héraði eða landsfjórðungi. Orðabók Háskólans hefur dæmi um þessa merkingu orðsins frá heimildarmönnum á síðari hluta síðustu aldar. Í ljós kom að hún er þekkt um austurhluta landsins og eru dæmi um merkinguna allt frá Suðursveit í Austur-Skaftafellssýslu og austur um norður í Vopnafjörð. Í Austur-Skaftafellssýslu var orðið notað um blett fram undan bæjum og gripahúsum: bæjarrúst, fjárhúsrúst, hesthúsrúst. En þegar austar dregur, á Fjörðum og Héraði, er orðið einkum notað um hlaðvarpann, aflíðanda, halla eða brekku sem gengur út frá hlaðinu. Heimildarmaður, upprunninn af Héraði, segir t. d. svo: ,,Amma mín ... fædd ... og upp alin í Fljótsdal. ... notaði orðið rúst í merkingunni hlaðvarpi, talaði um að eitthvað lægi úti á rústinni, ef það var í hlaðvarpanum". Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru nokkur dæmi um orðið rúst í þessari merkingu og virðast þau öll eiga rót sína að rekja til austurhluta landsins.

Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Önnur útgáfa, aukin og bætt. Ritstjóri Árni Böðvarsson. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1983.
  • Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Ritstjóri Mörður Árnason. Reykjavík: Edda 2002.
  • Þorleifur Einarsson. Jarðfræði. Saga bergs og lands. Mál og menning. Reykjavík 1968.