rusti og stjúpmóðir

Flestir kannast við orðið rusti eða rustasneið um endasneið á brauði eða köku. Þessar sneiðar eiga sér fleiri nöfn.

Fyrir norðan nota margir orðið gantasneið um hið sama og einnig þekkjast orðin gantur og ganti. Um gantasneið á Orðabókin aðeins tvö dæmi. Í öðru er sagt að stundum sé tunglið svo lítið að það minni á gantasneið af köku. Hitt er í upptalningu í tímaritinu Hlín þar sem nefnd eru í einni röð húskasneið, húsgangssneið og gantasneið. Heimildir okkar í talmálssafni benda hins vegar til að gantasneið sé endasneið en húska- og húsgangssneið þunnt skornar sneiðar.

Orðið ganti er samkvæmt ritmálssafni notað í fleiri en einni merkingu. Það getur merkt 'kjáni', 'fjörkálfur' og 'endasneið, rusti'. Engin dæmi fundurst þar um myndina gantur en í talmálssafni kom fram merkingin 'endasneið'.

Þunnt skorin sneið er oftast kölluð stjúpmóðursneið, stjúpmóðurflís, stjúpmóðir, stjúpa eða stjúpusneið. Dæmi í ritmálssafni fannst aðeins um stjúpmóðursneið og var það frá 19. öld. Færri þekkja hins vegar orðið húskasneið um þunnt skorna sneið en heldur algengara er orðið húsgangssneið. Einu dæmi í ritmálssafni eru þau sem fengin voru úr Hlín en í talmálssafni voru nokkur sem benda til Norður- og Austurlands. Önnur merkin orðsins húski er 'nískur maður, svíðingur'. Hugsanlegt er að húsgangssneið sé hliðarmynd eða skýringarmynd, húskasneið sé hin upprunalega og þar tekið mið af svíðingnum sem sker þunnar sneiðar. En framburðurinn ýtir undir myndun orðsins húsgangssneið einkum þar sem húski er ekki mjög algengt orð.