sælgæti

Allir þekkja sælgæti, allir hafa borðað sælgæti en hvenær fóru menn að nota orðið sælgæti og í hvaða merkingu?

Orðið virðist ekki notað í fornu máli. Þess er að minnsta kosti ekki getið í fornmálsorðabók Johans Fritzners. Í orðabók Eiríks Jónssonar yfir forna málið (1863:576) er gefin skýringin 'Lækkerier', þ.e. 'kræsingar, krásir, góðgæti' og tekur Eiríkur fram að orðið sé úr samtímamáli. Sælgæti er einnig nefnt í orðabók Guðbrands Vigfússonar (1957:617) og merkingin sögð 'dainty' sem merkir 'ljúfmeti, lostæti, sælgæti'. Engin tilvísun er til fornra heimilda við orðið og hefur Guðbrandur það líklegast úr samtímamáli sínu eins og mörg önnur orð í bókinni.

Elstu dæmi Orðabókar Háskólans um orðið sælgæti eru frá miðri 16. öld. Oddur Gottskálksson þýðir t.d. í öðru Pétursbréfi 2,13:
 • Þeir hallda fyrer sælgæti dagligar kræsingar.
Í biblíuútgáfunni frá 1981 stendur á sama stað:
 • Þeir hafa yndi af að svalla um miðjan dag.
Í Guðbrandsbiblíu er sælgæti notað að minnsta kosti tvisvar. Fyrra dæmið er úr Orðskviðunum 15.15 en hið síðara úr Jesaja 47.8:
 • Sa sem hryggur er hefur alldrei godann nockurn Dag / Enn gott gied er daglit Sælgiæte.
 • heyr nu þetta / þu sem i Sælgiæte lifer.
Í þessum elstu dæmum Orðabókarinnar er merking orðsins sælgæti 'yndi, unaður, munaður' og virðist hún ríkjandi á 16. og 17. öld og lifa góðu lífi fram á 19. öld. Magnúsi Stephensen fannst vín ,,jarðarinnar sælgæti“ en ekki er eins ljóst hvað Björn Halldórsson á við þegar hann segir í Atla:
 • Margir hafa her Hæns, sumir til Skemtunar, eda Sælgætis meir enn til Gagns.
Athyglisvert er að skoða málshætti í málsháttasafni Guðmundar Jónssonar. Þar virðist merkingin 'yndi, unaður, sællífi' ríkjandi:
 • Samvizka góð er sælgæti lífsins.
 • Svefn er sælgæti hins veika (er sætr þeim þreytta).
 • Ólíkt er sælgætið volæði.
 • Mátuligt sælgæti er manni hollast (meðal-lukka) (meðal-stand).
Dæmi Orðabókarinnar frá 19. og 20. öld eru nær undantekningarlaust notuð um eitthvað sem þykir sérlega gott í munni hvort heldur er kjöt eða fiskur, flatbrauð eða grautur, vín eða kaffi eða annað matar- eða drykkjarkyns. Eina dæmið í ritmálssafni um sælgæti í merkingunni 'sætindi' er úr Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness þar sem talað er heldur óvirðulega um sykur:
 • ekki að spara sykurdjöfulinn, sagði hann, hann hafði þann sið að tala óvirðulega um sælgæti.
Heimildir
 • Ritmálsskrá OH
 • Cleasby, Richard og Guðbrandur Vigfússon. 1957. An Icelandic-English Dictionary.Önnur útg. Oxford.
 • Eiríkur Jónsson. 1863. Oldnordisk ordbog. Kjöbenhavn.